Grein eftir Magnús Sædal Svavarsson, húsasmíðameistara og byggingatæknifræðing, sem situr í stjórn Húseigendafélagsins. Birt í Morgunblaðinu 15. febrúar 2022.
Fyrir nokkru birtist hér í blaðinu grein eftir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar og formann skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. Inntak greinarinnar er að á þeim tíma sem Breiðholtshverfi voru í byggingu hafi verið krafist lyftu í hús sem voru fimm hæðir eða meira og því hafi flest öll hús verið byggð fjögurra hæða. Með þessu hafi mátt lækka byggingarkostnað og ungir íbúar hafi gert sér stigana að góðu. Nú hafi lífaldur hækkað og stigarnir upp á fjórðu hæð íbúum fjötur um fót, til lausnar hafi Reykjavíkurborg ráðist í dýra breytingu á deiliskipulagi þar sem gert er ráð fyrir að hækka megi húsin um eina hæð og muni hún greiða fyrir lyftuna og gott betur. Þegar sé lokið við deiliskipulagsbreytingu í Árbæjarhverfi og samskonar breyting verði gerð fyrir Breiðholt. Enda sé bætt aðgengi að fleiri íbúðum markmið sem Reykjavík vilji vinna að. Formaðurinn minnist ekki á önnur hverfi borgarinnar en víðar er að finna fjögurra og fimm hæða fjölbýlishús en í fyrrnefndum hverfum, Háaleiti, og Melar sem dæmi. En er þá kálið sopið þegar í ausuna er komið? Því fer fjarri, enda segir formaðurinn að frumkvæði verði að koma frá íbúunum sjálfum annast gerist ekkert.
Um eignarrétt
Deiliskipulagsbreyting sem leiðir af sér aukinn byggingarrétt er í eigu allra eigenda eftir hlutfallstölum þeirra í viðkomandi eign og allir eigendur verða að samþykkja fjölgun eigna. Hver er vilji eigenda á fyrstu hæð til þess að taka á sig kostnað við breytingar og rekstur á lyftu?
Um burðarvirki
Efstu plata í umræddum húsum ber uppi létt þak og er hönnuð til þess að bera eigin þunga og snjóálag, slíkar plötur uppfylla því ekki kröfur um burðarþol og hljóðvist, úr þessu má bæta með ýmsum hætti, en það kostar sitt.
Um lagnakerfi
Inndregin fjórða hæð mun varla hafa sömu grunnmynd og aðrar hæðir viðkomandi byggingar og hefur það áhrif á lagnaleiðir, hita- og fráveitulagnir. Þá ber að hafa í huga að lagnakerfi bygginganna eru komnar á lífaldur og gætu haft verulegan kostnaðarauka í för sé svo.
Um félagslega þætti
Því fer fjarri að aðgengi að íbúðum sé heimatilbúinn vandi bundinn við Ísland. Víða er leitað lausna á því að bæta aðgengið og er þar hægt að líta til nágrannalanda, en á Norðurlöndum hefur verið unnið að úrbótum um langt skeið. Að hagkvæmisástæðum hafa yfirvöld þar styrkt breytingar sem þessar enda munu þær nýtast áfram og draga úr þörf á byggingu dýrra vistheimila. En að fleiru þarf að hyggja en lyftum einum en flestar umræddar íbúðir eru með baðkörum sem henta illa eldra fólki.
Er inndregin fjórða hæð eina lausnin?
Inndregin hæð hefur í för með sér breytt yfirbragð hverfis og skuggavarp og fjölgun íbúða getur kallað á fleiri bílastæði, þessi atriði koma ekki fram í grein formannsins. Þar kann að ráða öfgafull stefna núverandi borgaryfirvalda um þéttingu byggðar. En fleira er í boði til lausnar má þar benda á að Félagsbústaðir settu lyftu í stigahús á Meistaravöllum, í þeirra eigu, með því að mjókka stigahlaup og koma fyrir lítilli lyftu sem eftir því best er vitað hefur vel þjónað tilgangi sínum. En áður höfðu skipulagsyfirvöld neitað Félagsbústöðum um leyfi til þess að byggja inndregna fjórðu hæð. Skoða verður mismunandi lausnir vegna hverrar húsagerðar og finna þá hagkvæmustu. m.t.t . til kostnaðar og fagurfræðilegra sjónarmiða. Ekkert verður að gert nema til komi fjárframlög og stuðningur yfirvalda eigi árangur að nást. Það er ekki nægjanlegt að gera deiliskipulagsbreytingu og vekja með þeim hætti vonir fólki sem býr við skert aðgengi, slíkt er jafnvel ámælisvert. Sé það raunverulegt markmið Reykjavíkurborgar að auka aðgengi að íbúðarhúsnæði á fjórðu hæð verður fleira að koma til en orðagjálfur eitt.