fbpx

Draugagallaspjall

Vegna umfjöllun um hvað geti talist galli á fasteign samkvæmt lögum um fasteignakaup vildum við endurbirta grein eftir formann Húseigendafélagsins um draugagang og gallaðar eignir.

Draugagallaspjall.

 

Borist hefur fyrirspurn frá kaupanda gamals húss um það hvort draugagangur sé galli og hver sé réttur þess sem kaupir drauginn í sekknum. Hann hafi eftir kaupin frétt að húsið hafi verið vettvangur voveiflegra atburða og reimleikaorð hafi lengi loðað við það. Fjölskyldan sé hrolli sleginn og flúin í skjól hjá vandamönnum. Segist hann vilja rifta en seljandi hafi skellt skollaeyrum við því.

Draugagangur.

Það er snúin spurning hvort reimleiki í húsum sé galli, sem veiti kaupanda rétt til riftunar, skaðabóta, afsláttar eða úrbóta. Það eru skilyrði skaðabóta að um sök sé að tefla hjá seljanda, t.d. að hann vanræki upplýsingaskyldu sína. Það er skilyrði riftunar að um verulegan annmarka sé að ræða. Óverulegur draugagangur myndi sem sagt ekki heimila kaupanda að rifta. Það verður að kveða rammt að. Draugagangur er eins og að líkum lætur  fyrst og fremst í eldri húsum. Draugar eru yfirleitt komnir úr skuggalegri fortíð  og kunna best við sig í gömlum kumböldum og skúmaskotum en það er þó ekki algilt. Draugar eru ólíkindatól og taka sér bólfestu á ólíklegustu stöðum, t.d.  lúxusbílum, flatskjám, tölvum og öðrum rafeindatækjum.

Fasteignakaupalögin.

Í Fasteignakaupalögum er fjallað almennt um galla en þar er ekki fjallað um einstakar gallategundir eins og draugagang.  Fasteign telst gölluð ef hún uppfyllir ekki þær kröfur sem leiðir af lögunum og kaupsamningi. Eign er gölluð ef hún er ekki í samræmi við samning aðila og réttmætar væntingar kaupanda. Þá er eign gölluð ef kaupandi hefur ekki fengið réttar og fullnægjandi upplýsingar um hana. Notuð fasteign telst ekki gölluð nema ágalli rýri verðmæti hennar svo nokkru varði. Þessi regla var sett til höfuðs óraunhæfum væntingum og kröfum kaupenda notaðra fasteigna og til að stemma stigu við kröfum kaupenda vegna óverulegra  gæðafrávika og smágalla.

Óverulegur draugagangur.

Spyrja má hvort kaupandi geti ekki borið fyrir sig smávægilegan draugagang. Verða kaupendur að umlíða draugagang upp að vissu marki? Eiga kaupendur notaðra eigna aðeins rétt ef draugar ganga ljósum logum? Hvenær rýrir draugur verðmæti húss svo nokkru nemi? Getur verið að menn verði að sætta sig við dúllulegar Skottur en ekki viðskotailla Móra og útlenska ófétisdrauga.

Leyndir draugar og gallar.

Til Húseigandafélagsins leitar stundum draugahrjáð fólk, sem telur sig hafa keypt draugsetna eign. Væntingar kaupenda eru misjafnar en draugagangur fer yfirleitt í bága við þær. Kaupendur mega almennt treysta því að draugar fylgi ekki með í kaupum og eiga ekki að þurfa að búa með draugum með þeim ama og óþægindum sem þeim fylgir.  Draugar teljast ekki til venjulegs fylgifjár fasteigna. Draugagangur er þess eðlis að hann dylst, sumum  alltaf, öðrum oftast og enn öðrum stundum og stundum ekki. Varla getur að finna galla sem ber betur það nafn með rentu að vera leyndur galli.

Upplýsingarskylda og aðgæsla.

Seljandi á að upplýsa kaupanda um draugagang ef hann veit um hann. Ella getur kaupandi öðlast riftunarrétt og/eða rétt til skaðabóta eða til afsláttar. Á hinn bóginn má ætlast til þess að grandvar kaupandi spyrji eftir draugum ef tilefni er til,  t.d. ef hann veit um voveiflega atburði í húsinu eða verður var við eitthvað á sveimi. Kaupandi getur ekki borið fyrir sig draug sem hann sá eða mátti sjá. Komi fram vísbendingar um eitthvað misjafnt verður hann að fara á stúfana. Annars situr hann í draugasúpunni.

Skuldaboli. Fordómar.

Fólk og draugar eru með misjöfnu móti. Sumum finnst kósý að hafa drauga á sveimi meðan aðrir tryllast úr hræðslu. Sumir eru ofurnæmir meðan aðrir verða einskis varir. Ekki sama hver draugurinn er. Það er sitthvað þjóðlegur Móri og Skotta eða landýgur Skuldaboli eins og Icesave-draugurinn. Sumir hafa horn í síðu drauga svo jaðrar við fordóma, vegna forréttinda sem þeir njóta, þeir fái t.d frítt í strætó og sund, drekki frítt í gegnum saklausar fyllibyttur, greiði ekki húsaleigu né bílalán og skuldir þeirra séu afskrifaðar og fyrirgefnar eins og ekkert sé.

Sönnun. Matsmenn. Dómsmál.

Kaupandi verður að sanna að eign sé gölluð. Það er snúið og mjög á brattan fyrir hann að sanna tilvist drauga og kröfur sínar vegna þeirra. Oftast eru dómkvaddir sérfróðir menn til að staðreyna galla og meta kostnað við úrbætur. Sennilega myndu það helst vera miðlar og prestar sem til greina kæmu í draugagallamálum en einnig aðrir með góð sambönd fyrir handan. Yfirleitt hafa kaupendur ekki árangur sem erfiði í málum vegna reimleika.  Þetta stafar ekki af draugaskorti heldur því hversu sönnunarstaðan er erfið.  Það er þrautin þyngri að sanna tilvist drauga og draugagang. Þótt draugar skjóti upp kollinum annað veifið þá hafa slík mál ekki enn komið til kasta dómstóla hér á landi.

Fyllibyttur. Kaffidraugar.

Fyrir nokkrum árum bauð maður Húseigendafélaginu að draugahreinsa hús félagsmanna.  Sagði hann mörg hús  pökkuð og stútfull af draugum sem yfirleitt væru framliðnir drykkjumenn.  Þeir væru friðlausir og gætu ekki hugsað sér að kveðja  jarðvistina þar eð þeir hafi átt eitthvað brennivín eftir ódrukkið. Það eru vissulega hroðaleg örlög. Menn ganga aftur af  minna tilefni.   Íslendingar eru ofarlega meðal þjóða í kaffineyslu. Nýleg rannsókn á vegum háskólans í Durham í Englandi leiddi í ljós að þeir sem drekka meira en 7 bolla af kaffi á dag eigi á hættu að sjá og heyra drauga. Þeir heyri framandlegar raddir og sjái svipi. Er hér kannski komin skýring á rammleika og langlífi íslenskra drauga? Bleksterkt kaffi og brennivín er jú það besta sem okkur er gefið.

Lifandi draugar. Leki og Raki.

Fram hjá því verður ekki litið  að margir telja að draugar séu ekki til nema í hugskoti eða vitund sem þess sem þá þykist sjá. Aðrir hafa fyrir satt að draugar séu á hverju strái en þeir séu allir lifandi.  Þeir húsdraugar sem illræmdastir eru og torveldast er að kveða niður, eru þeir  RAKI og LEKIÞeir eru viðsjárverðir og valda oft og víða skaða og teljast oft til galla. Þeir hafa leikið margt húsið grátt og valdið mörgum húseigandann  búsifjum og spilað stóra rullu í dómsmálum.

Sigurður Helgi Guðjónsson hrl.

Fleiri fréttir

Aðalfundur Húseigendafélagsins

  Aðalfundur Húseigendafélagsins 2024 verður haldinn fimmtudaginn 18. apríl nk. í sal Höfuðstöðvarinnar, Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, og hefst hann kl. 16:30. Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.   F.h. stjórnar

Félagsgjöld 2024

Félagsgjöld 2024 Greiðsluseðlar fyrir félagsgjöld 2024 hafa verið gefnir út og sendir í heimabanka félagsmanna. Sjá má upphæðir félagsgjalda á heimasíðunni undir flipanum Þjónusta og gjaldskrár. Til að minnka pappírsnotkun