Á dögunum var samþykkt á Alþingi þingályktun um ástandskýrslur fasteigna sem felur í sér endurskoðun á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015 og lögum um fasteignakaup, nr. 40/2002.
Ályktunin snýr í stuttu máli að því að endurskoða lögin með það markmið að leiðarljósi að ástandskýrslur fylgi söluyfirlitum allra fasteigna sem ætlaðar eru til íbúðar ásamt því að gera það að beinni lagaskyldu að eigendur fasteigna haldi viðhaldsdagbók sem sé færð rafrænt undir fastanúmer eignar. Muni breytingar þessar ná í gegn mun það óhjákvæmilega hafa áhrif á stöðu, ábyrgð og verkefni fasteignasala við kynningu og sölu fasteigna.
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur því skipað starfshóp til að móta tillögur til breytinga á viðeigandi lögum. Í starfshópnum er Tinna Andrésdóttir lögfræðingur Húseigendafélagsins ásamt Gizuri Bergsteinssyni, Kolbrúnu Örnu Villadsen, Friðriki Á. Ólafssyni, Hannesi Steindórssyni og Sóldísi Rósu Símonardóttur.