fbpx

Enn af myglu

Grein birt í Morgunblaðinu 7.05.2022 eftir Magnús Rannver Rafnsson

 

Eðlis­fræði raka og loft­un­ar hef­ur ekki breyst. Eðlis- og efn­is­gerð timb­urs hef­ur held­ur ekki breyst frá því fyrstu tré litu dags­ins ljós. Þekk­ing á sam­spili timb­urs, raka og loft­un­ar er fjarri því að vera ný af nál­inni, á sér langa sögu. Þó vefjast fræðin ít­rekað fyr­ir ís­lensk­um mann­virkja­hönnuðum og rann­sak­end­um. Húsa­smiðir eru al­mennt vel að sér um mál­efni myglu, en eru sjaldn­ast spurðir álits.

Timb­ur er notað í flest­ar þær gerðir mann­virkja sem maður­inn hef­ur skapað: bryggj­ur, brýr, fjós, hlöður, heim­ili, marg­vís­leg iðnaðarmann­virki og svo mætti lengi telja, allt margreynt og þekkt. Hönn­un mann­virkja með timbri hverf­ist meðal ann­ars um að tryggja gæði í sam­spili viðar­teg­und­ar, loft­un­ar og raka. Ekk­ert nýtt und­ir sól­inni í þeim efn­um. Því hlýt­ur það að vekja spurn­ing­ar þegar mygla er í sí­fellu sett fram sem vanda­mál efn­is­ins, þegar reynd­in er að vand­inn er hönnuðar­ins og vinnu­bragða hans.

Enn frem­ur hlýt­ur það að vekja spurn­ing­ar þegar fram­kvæmda­stjóri stórs ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæk­is kenn­ir margreyndu bygg­ing­ar­efn­inu timbri um mygluóf­ar­ir í hönn­un fyr­ir­tæk­is­ins. Síðast var það Gas- og jarðgerðar­stöðin (GAJA), áður Orku­veitu­húsið og hver veit hverju öðru verður um kennt næst öðrum en hönnuðinum sem ekki kann skil á eðlis­fræði raka og loft­un­ar.

Myglufar­ald­ur á Íslandi – og mygla yf­ir­höfuð – verður seint rak­inn til bygg­ing­ar­efn­is­ins timb­urs. Hins veg­ar verður að nota timb­ur, eins og önn­ur bygg­ing­ar­efni, rétt. Það meðal ann­ars virðist hafa mis­far­ist í GAJU. Að mygla komi upp aft­ur og aft­ur, jafn­vel hjá sömu aðilum, er jú ekki til­vilj­un. Eitt­hvað er að, svo mikið er víst. Hönn­un mann­virkja á að taka mið af efniviðnum hverju sinni. Rang­ar hönn­un­ar­ákv­arðanir verða ekki rakt­ar til efniviðar­ins.

Hver er þá vand­inn? Hann virðist snú­ast um þetta klass­íska; fúsk, græðgi og rétt tengslanet. Þekk­ing er of dýr, ódýrt vinnu­afl og verk­smiðju­fram­leiðsla á óvönduðum afurðum er í reynd hinn rauði þráður myglufar­ald­urs­ins. Hér má einnig minna á að kross­límd­ar timb­urein­ing­ar (sbr. tíðar aug­lýs­ing­ar) eru timb­urein­ing­ar sem lúta lög­mál­um timb­urs. Þær mygla því eins og hvert annað efni, sé ekki rétt farið að í hönn­un.

Í ein­faldaðri mynd er eft­ir­far­andi ljóst varðandi hinn sér­ís­lenska myglufar­ald­ur: 1) Það skort­ir þekk­ingu á fag­leg­um lausn­um, 2) það skort­ir þekk­ingu á sam­spili timb­urs, raka og loft­un­ar (eðlis- og efn­is­fræði mann­virkja), 3) það skort­ir eitt­hvað veru­lega mikið í tækni­legri hönn­un­ar­stjórn­un jafn­vel dýr­ustu op­in­beru stór­hýsa. Ekki það að um nýja þekk­ingu sé að ræða, en nauðsyn­leg sér­fræðiþekk­ing er aug­ljós­lega ekki fyr­ir hendi hjá ansi mörg­um stór­fyr­ir­tækj­um og ráðgjöf­um á bygg­ing­ar­markaði. Hér næg­ir að rifja upp ófar­ir stór­hýs­is­ins Orku­veitu­húss­ins sem nú stend­ur tómt, hrak­far­ir Foss­vogs­skóla og ótal myglandi ný­bygg­ing­ar kenni­töluflakk­ara sem al­menn­ing­ur neyðist til að kaupa á upp­sprengdu verði sök­um hús­næðis­skorts.

At­hygli vek­ur, að þrátt fyr­ir lang­an lista meiri­hátt­ar hönn­un­ar­mistaka í op­in­ber­um verk­efn­um er þekk­ing­ar­inn­ar – fag­legra lausna – ekki leitað utan lokaðs hóps út­val­inna fárra. Þetta mætti gera til dæm­is með því að a) bjóða út hönn­un og ráðgjöf, b) leita sér­fræðinga sem þekkja sitt fag og hafa til þess rétta mennt­un og sér­hæf­ingu, c) halda sam­keppn­ir eða d) með eðli­legri end­ur­nýj­un í gegn um lít­il og meðal­stór sér­hæfð ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæki og byggja það á for­send­um þekk­ing­ar, hæfni og reynslu. Ekk­ert slíkt hef­ur sést í ár­araðir, og sem slíkt ekki til­vilj­un. Enda rúlla hönn­un­ar­verk­efn­in áfram á silfruðu færi­bandi til fúsk­ara, eins og um væri að ræða deild inn­an op­in­berr­ar stjórn­sýslu.

Þekk­ing­ar­skort­ur í land­inu sem slíku er ekki vanda­málið, held­ur það að þekk­ing­unni er ekki hleypt að. Um­hverf­is- og mann­virkja­sviði lands­ins er haldið í gísl­ingu sér­hags­muna­afla sem virðast telja sig eiga fagsviðið. Á sama tíma hafa stór­fyr­ir­tæki hol­ast að inn­an þar sem sér­fræðing­ar með þekk­ingu þykja of dýr­ir fyr­ir him­in­há­ar arðgreiðslur. Af­leiðing­in eru mis­tök ofan á mis­tök ofan á mis­tök.

Þetta er vand­inn: Hönn­un­ar- og ráðgjaf­ar­verk­efn­um er al­mennt ekki dreift á for­send­um hæfni, þekk­ing­ar og reynslu. Á Íslandi er hönn­un­ar- og ráðgjaf­ar­verk­efn­um fyrst og síðast dreift á for­send­um tengslaneta. Vin­ir hringja í vini – þekkt stef. Og skipt­ir þá engu máli hvort vin­ur­inn dreg­ur á eft­ir sér slóð mistaka.

Er nauðsyn­legt að verja miklu fé í rann­sókn­ir á myglufar­aldri? Ég tel svo ekki vera. Þó er ég vissu­lega þeirr­ar skoðunar að það þurfi að auka veru­lega fjár­muni í rann­sókn­ir, ný­sköp­un og tækniþróun, með þróun lausna að leiðarljósi – al­mennt. Lausn­irn­ar og aðferðirn­ar fyr­ir myglu­fría hönn­un húsa eru til, þær kom­ast bara ekki að. Skyn­sam­legra væri að verja fé í bæt­ingu stjórn­sýsl­unn­ar, miðlun­ar og innviða fyr­ir sann­gjarna og heiðarlega dreif­ingu op­in­berra hönn­un­ar- og ráðgjaf­ar­verk­efna, á for­send­um hæfni, þekk­ing­ar og reynslu. Kerfi sem úti­lok­ar þekk­ingu og hæfni er kerfi sem ekki virk­ar.

Besta myglu­vörn­in felst í því að hætta að hringja í vin og hleypa þekk­ing­unni að.

Höfundur er húsasmiður, sérfræðingur í eðli- og efnisfræði bygginga og fyrrverandi lektor við NTNU í Þrándheimi.

Fleiri fréttir

Sumaropnun Húseigendafélagsins

Vegna sumarleyfa starfsmanna er hurðin lokuð hjá okkur til 6. ágúst nk. Hægt að er ná í starfsmann á okkar vegum í síma 588-9567, einnig er hægt að senda póst