Grein birt í Morgunblaðinu 7.05.2022 eftir Magnús Rannver Rafnsson
Eðlisfræði raka og loftunar hefur ekki breyst. Eðlis- og efnisgerð timburs hefur heldur ekki breyst frá því fyrstu tré litu dagsins ljós. Þekking á samspili timburs, raka og loftunar er fjarri því að vera ný af nálinni, á sér langa sögu. Þó vefjast fræðin ítrekað fyrir íslenskum mannvirkjahönnuðum og rannsakendum. Húsasmiðir eru almennt vel að sér um málefni myglu, en eru sjaldnast spurðir álits.
Timbur er notað í flestar þær gerðir mannvirkja sem maðurinn hefur skapað: bryggjur, brýr, fjós, hlöður, heimili, margvísleg iðnaðarmannvirki og svo mætti lengi telja, allt margreynt og þekkt. Hönnun mannvirkja með timbri hverfist meðal annars um að tryggja gæði í samspili viðartegundar, loftunar og raka. Ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum. Því hlýtur það að vekja spurningar þegar mygla er í sífellu sett fram sem vandamál efnisins, þegar reyndin er að vandinn er hönnuðarins og vinnubragða hans.
Enn fremur hlýtur það að vekja spurningar þegar framkvæmdastjóri stórs ráðgjafarfyrirtækis kennir margreyndu byggingarefninu timbri um mygluófarir í hönnun fyrirtækisins. Síðast var það Gas- og jarðgerðarstöðin (GAJA), áður Orkuveituhúsið og hver veit hverju öðru verður um kennt næst öðrum en hönnuðinum sem ekki kann skil á eðlisfræði raka og loftunar.
Myglufaraldur á Íslandi – og mygla yfirhöfuð – verður seint rakinn til byggingarefnisins timburs. Hins vegar verður að nota timbur, eins og önnur byggingarefni, rétt. Það meðal annars virðist hafa misfarist í GAJU. Að mygla komi upp aftur og aftur, jafnvel hjá sömu aðilum, er jú ekki tilviljun. Eitthvað er að, svo mikið er víst. Hönnun mannvirkja á að taka mið af efniviðnum hverju sinni. Rangar hönnunarákvarðanir verða ekki raktar til efniviðarins.
Hver er þá vandinn? Hann virðist snúast um þetta klassíska; fúsk, græðgi og rétt tengslanet. Þekking er of dýr, ódýrt vinnuafl og verksmiðjuframleiðsla á óvönduðum afurðum er í reynd hinn rauði þráður myglufaraldursins. Hér má einnig minna á að krosslímdar timbureiningar (sbr. tíðar auglýsingar) eru timbureiningar sem lúta lögmálum timburs. Þær mygla því eins og hvert annað efni, sé ekki rétt farið að í hönnun.
Í einfaldaðri mynd er eftirfarandi ljóst varðandi hinn séríslenska myglufaraldur: 1) Það skortir þekkingu á faglegum lausnum, 2) það skortir þekkingu á samspili timburs, raka og loftunar (eðlis- og efnisfræði mannvirkja), 3) það skortir eitthvað verulega mikið í tæknilegri hönnunarstjórnun jafnvel dýrustu opinberu stórhýsa. Ekki það að um nýja þekkingu sé að ræða, en nauðsynleg sérfræðiþekking er augljóslega ekki fyrir hendi hjá ansi mörgum stórfyrirtækjum og ráðgjöfum á byggingarmarkaði. Hér nægir að rifja upp ófarir stórhýsisins Orkuveituhússins sem nú stendur tómt, hrakfarir Fossvogsskóla og ótal myglandi nýbyggingar kennitöluflakkara sem almenningur neyðist til að kaupa á uppsprengdu verði sökum húsnæðisskorts.
Athygli vekur, að þrátt fyrir langan lista meiriháttar hönnunarmistaka í opinberum verkefnum er þekkingarinnar – faglegra lausna – ekki leitað utan lokaðs hóps útvalinna fárra. Þetta mætti gera til dæmis með því að a) bjóða út hönnun og ráðgjöf, b) leita sérfræðinga sem þekkja sitt fag og hafa til þess rétta menntun og sérhæfingu, c) halda samkeppnir eða d) með eðlilegri endurnýjun í gegn um lítil og meðalstór sérhæfð ráðgjafarfyrirtæki og byggja það á forsendum þekkingar, hæfni og reynslu. Ekkert slíkt hefur sést í áraraðir, og sem slíkt ekki tilviljun. Enda rúlla hönnunarverkefnin áfram á silfruðu færibandi til fúskara, eins og um væri að ræða deild innan opinberrar stjórnsýslu.
Þekkingarskortur í landinu sem slíku er ekki vandamálið, heldur það að þekkingunni er ekki hleypt að. Umhverfis- og mannvirkjasviði landsins er haldið í gíslingu sérhagsmunaafla sem virðast telja sig eiga fagsviðið. Á sama tíma hafa stórfyrirtæki holast að innan þar sem sérfræðingar með þekkingu þykja of dýrir fyrir himinháar arðgreiðslur. Afleiðingin eru mistök ofan á mistök ofan á mistök.
Þetta er vandinn: Hönnunar- og ráðgjafarverkefnum er almennt ekki dreift á forsendum hæfni, þekkingar og reynslu. Á Íslandi er hönnunar- og ráðgjafarverkefnum fyrst og síðast dreift á forsendum tengslaneta. Vinir hringja í vini – þekkt stef. Og skiptir þá engu máli hvort vinurinn dregur á eftir sér slóð mistaka.
Er nauðsynlegt að verja miklu fé í rannsóknir á myglufaraldri? Ég tel svo ekki vera. Þó er ég vissulega þeirrar skoðunar að það þurfi að auka verulega fjármuni í rannsóknir, nýsköpun og tækniþróun, með þróun lausna að leiðarljósi – almennt. Lausnirnar og aðferðirnar fyrir myglufría hönnun húsa eru til, þær komast bara ekki að. Skynsamlegra væri að verja fé í bætingu stjórnsýslunnar, miðlunar og innviða fyrir sanngjarna og heiðarlega dreifingu opinberra hönnunar- og ráðgjafarverkefna, á forsendum hæfni, þekkingar og reynslu. Kerfi sem útilokar þekkingu og hæfni er kerfi sem ekki virkar.
Besta mygluvörnin felst í því að hætta að hringja í vin og hleypa þekkingunni að.
Höfundur er húsasmiður, sérfræðingur í eðli- og efnisfræði bygginga og fyrrverandi lektor við NTNU í Þrándheimi.