Húseigendafélagið á sér langa tilvist og sögu, sem spannar nú heila öld. Það var stofnað árið 1923 og hefur starfað óslitið síðan. Upphaflega var félagið málsvari leigusala en það hefur þróast í að verða almennt hagsmunafélag húseigenda. Það geta allir fasteignaeigendur, einstaklingar, félög og fyrirtæki gerst félagar. Félagsmenn eru um tíu þúsund og hefur farið jafnt og þétt fjölgandi undanfarna áratugi.
Það eru félagsmenn sem standa undir starfsemi þess að öllu leyti. Félagið nýtur engra opinberra styrkja og stendur alfarið á eigin fótum og engum háð. Húseigendafélagið er eingöngu rekið með hagsmuni félagsmanna og húseigenda að leiðarljósi en ekki hagnað.
Starfsemi félagsins er í meginatriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi almenn hagsmunagæsla og upplýsingamiðlun og í öðru lagi þjónusta við félagsmenn, þ.e. lögfræðiþjónusta, húsfundaþjónusta og leiguþjónusta. Almenna hagsmunabaráttan hefur í gegn um tíðina einkum verið fólgin í að stuðla að réttarbótum á þeim réttarsviðum sem snerta fasteignir og hamla gegn óhóflegum opinberum álögum á fasteignir. Hefur félaginu orðið verulega ágengt í þeim efnum.
Húseigendafélagið mun fyrst og fremst fagna 100 ára afmælinu með því að gera gott félag enn betra, fjölga félögum og efla starfsemi þess og auka þjónustu þess í hvívetna.
En þess utan blæs félagið til afmælisfundar fimmtudaginn 12. október n.k. ,kl. 17-19 í sal N-132 í Öskju. Fundurinn er helgaður sögu fjölbýlis-, nábýlis-, og grenndarréttar. Fyrirlesarar verða Pétur Ármannsson, arkitekt og Víðir Smári Petersen, dósent.
Fundurinn verður öllum opinn og í samráði við Lagastofnun .
Fundarstjóri verður Brynjar Níelsson og sérstakur heiðursgestur Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi félagsmálaráðherra.
Dagskrá fundarins
Kl. 17.00 – 17.20: Húseigendafélagið fyrr og nú. Sigurður Helgi Guðjónsson form.
Kl. 17.20 – 17.30: Lögfræðiþjónusta o.fl. í erli dagsins. Tinna Andrésdóttir lögfr.
Kl. 17.30 – 17.50: Um grennd og nábýlisrétt. Víðir Smári Petersen dósent.
Kl. 17.50 – 18.10: Frá einbýli til fjöleignar. Pétur Ármannsson arkitekt.
Kl. 18.10 – 18.20: Framtíðarsýn félagsins. Hildur Ýr Viðarsdóttir varaformaður.
Kl. 18.20 – 19.00: Veitingar.