Almennt.
Í útkomuspá frá október 2021 um rekstur ársins var gert ráð fyrir tapi á árinu 2021 aðallega vegna meiri hækkunar á rekstrarkostnaði umfram hækkun tekna. Lítill munur varð á raunverulegri niðurstöðu rekstrar miðað við útkomuspá.
Í ljósi taps á rekstri var ákveðið að auka tekjur sérstaklega á árinu 2022 um leið og ítrasta aðhalds yrði gætt á útgjaldahliðinni þannig að félagsgjald og útseld þjónusta yrði hækkuð fremur en að draga úr þjónustunni.
Þjónustugjaldskrár ársins 2022 voru hækkaðar um sem næst 10% til að mæta væntri hækkun launakostnaðar á árinu 2022. Á móti almennri hækkun þjónustugjaldskrár var gjaldskrá viðtalstíma við lögfræðinga haldið óbreyttri á milli ára. Það skal tekið fram að þjónustugjaldskrá vegna vinnu lögfræðinga Húseigendafélagsins er lægri en útseld vinna lögfræðinga úti í bæ, þ.e. þjónustan er niðurgreidd til félagamanna okkar.
Félagsgjöld 2022.
Í undirbúningi breytinga á gjaldskrá félagsgjalda 2022 var skoðað hvernig verðlag borið saman við upphæð félagsgjalda hafi verið allt frá árinu 2007 til ársins 2021. Á þessu tímabili hækkaði neysluverðsvísitalan um 84% og launavísitalan um 150%.
Árgjald einstaklings á árinu 2007 var 4.800 kr. og gjald á íbúð í húsfélagi 2.400 kr. Á árinu 2021 var félagsgjald einstaklings 6.800 kr. en 4.700 kr. fyrir hverja íbúð í húsfélagi. Árgjald einstaklings hafði því hækkað um 42% en íbúðar í húsfélagi um 96% á umræddu tímabili. Árgjaldi einstaklinga var viljandi haldið lágu í mörg ár eftir hrun og má þar finna aðalskýringuna á lítilli hækkun þess gjalds.
Félagsgjald einstaklinga hækkaði úr 6.800 kr. í 7.800 kr. á árinu 2022 og nýskráningargjald um 1.000 kr. eða úr 7.000 kr. í 8.000 kr.
Félagsgjald fyrirtækja og félagasamtaka hækkaði úr 6.800 kr. í 10.000 kr. og nýskráningargjald úr 7.000 kr. í 15.000 kr.
Félagsgjald íbúða í húsfélögum er ýmist óbreytt á milli ára eða hækkaði mismikið. Á íbúð í húsfélögum með 2-12 íbúðum er félagsgjaldið 5.900 kr., 5.100 kr. á íbúð í húsfélögum með 13-50 íbúðum og 4.000 kr. á íbúð í húsfélögum með 51 íbúð og fleiri. Nýskráningargjald fyrir húsfélög er 15.000 kr. en var 12.000 kr. á árinu 2021.
Innheimta félagsgjalda ársins 2022 gengur vel. Ástæða betri innheimtu má aðallega rekja til tveggja atriða. Í byrjun mars var tilkynnt með fjölpósti um nýja þjónustu Húseigendafélagsins fyrir smærri húsfélög, sem er bókhalds- og fjármálaþjónusta og aðalfundaþjónusta. Einnig var haldið námskeið 16. mars sl. um fjármál og bókhald húsfélaga, sem fjölmargir forsvarsmenn húsfélaga sóttu ýmist í eigin persónu eða með rafrænum hætti. Áminningar um ógreidd félagsgjöld, ýmist í tölvupósti eða með bréfi í landpósti, fóru út mun fyrr í ár en í fyrra og hefur það haft áhrif.
Fjöldi nýskráninga á fyrstu mánuðum ársins 2022 eru nær jafnmargar og niðurfellingar af félagaskrá og vænta má að nýskráningar verði fleiri á árinu en niðurfellingar.