Aðalfundir húsfélaga

Nú stendur yfir tími aðalfunda í húsfélögum sem halda ber einu sinni á ári fyrir lok apríl. Þar eru teknar ákvarðanir um hagsmuni og þýðingarmikil mál sem hafa í för með sér miklar skuldbindingar og fjárútlát. 

Það er forsenda fyrir lögmæti ákvörðunar og greiðsluskyldu eigenda að hún hafi verið tekin á fundi sem er löglega boðaður og haldinn. Húsfundur getur yfirleitt afgreitt mál með bindandi hætti án tillits til þess hversu margir sækja fund og yfirleitt dugir einfaldur meirihluti mættra fundarmanna til ákvarðana. Húsfundur hefur mikið vald og getur tekið mjög afdrifaríkar og íþyngjandi ákvarðanir sem binda eigendur og þess vegna eru í lögum gerðar ríkar kröfur til húsfunda.

Lesa Meira

Lagabætur um heimagistingu og rafbíla í augnsýni!

Lesa Meira

Fjöleignarhúsalög og rafbílar.

Frá því í september í fyrra hefur Húseigendafélagið ásamt fleirum, rembst við að vekja athygli félagsmálráðherra og ráðuneytis hans á vandamálum varðandi hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum og brýnni nauðsyn á lagabreytingum í því efni, þ.e. á lögum um fjöleignarhús, varðandi bílastæði o.fl.

 

Hússeigendafélagið er 95 ára gamalt og rótgróið. Félagsmenn eru nálægt 10 þúsundi og þar af eru um 800 húsfélög í fjöleignarhúsum. Félagið hefur í áranna rás beitt sér fyrir réttarbótum varðandi fasteignir og náð verulegum árangri í því efni. Félagið hefur um áratuga skeið átt í miklum og góðum samskiptum við ráðherra og ráðuneyti félagsmála og hefur þekking og reynsla félagsins haft verulegt vægi og leitt til margra réttarbóta. En nú virðist öldin önnur.

 

Húseigendafélagið hefur leitt þetta mál með stuðningi helstu hagsmunaaðila og sérfræðinga á þessu sviði. Má þar nefna Félag ísl. Bifreiðaeigenda, Félag fasteignasala, Bílgreinasambandið og Öryrkjabandalagið. Einnig hefur Sambandi ísl. Sveitarfélaga stutt málið.

 

Vandamál hafa orðið og munu hrannast enn frekar upp í fjöleignarhúsum ef ekki verður brugðist við fljótlega með lagabreytingu sem opnar fyrir rafbíla í slíkum húsum. Þar er og  verður flöskuháls sem getur tafið boðaða rafbílavæðingu.

 

Þetta er mjög aðkallandi, brýnt mál sem þegar er orðið bagalegt og valdið hefur deilum og óróa í fjöleignarhúsum. Ástandið á eftir að verða mjög slæmt og ill viðráðanlegt þegar rafbílavæðingin færist í aukana ef ekkert verður að gert.  

 

Alls kyns reddingar og bráðalausnir hafa sést, leiðslur út um glugga, sem og illdeilur og tortryggni, menn berjast með köplum, klippa á leiðslur og taka úr sambandi hver hjá öðrum vegna meints rafmagnsstuldar o.fl. o.fl. Skeggöld og skálmöld vegna þessa virðist  í uppsiglingu, verði ekkert að gert.

 

Þetta er oftar og oftar að koma upp í viðskiptum um íbúðir. Það er orðið ákvörðunarástæða margra kaupenda að tenging og hleðsla fyrir rafbíla sé fyrir hendi eða möguleg. Þá hafa möguleikar í því efni áhrif á hvort fólk kaupir sér rafbíla eða annars konar bíla. Það er ekki viðunandi að svona atriði séu forsenda í íbúðar-og bílakaupum. Það hamlar þróuninni og skekkir allt.

 

Með breytingu á byggingarreglugerð er séð við þessu í nýbyggingum en í eldri húsum er þetta þegar orðið vandamál og mun vaxa ört og verða illa viðráðanlegt ef ekkert verður að gert.
 

Ég skrifaði lagabálkinn um fjöleignarhús á sínum tíma og lýsti mig reiðubúinn að taka að skoða þetta, safna upplýsingum og gögnum og semja drög að frumvarpi, eins og ég hef gert 3 eða 4 sinnum áður þegar brýn þörf hefur kallað á. Ég bauðst til að gera það án þóknunar vegna þess hve mikið er í húfi og málið brýnt fyrir eigendur i fjöleignarhúsum.

 

Ég ræddi  þetta við aðra helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði og eru þeir voru á einu máli um að best og nærtækast væri að fela mér þetta verk. Þetta eru m.a. núverandi og fyrrverandi formenn kærunefnda á þessu sviði og fræðimenn, lagakennarar og dómarar.

 

Frá því í september í fyrra hef ég rembst við að ná eyrum og athygli ráðherra og ráðuneytisstarfsmanna á þessu máli. Hef ég lengst af talað fyrir daufum eyrum og erindum mínum ekki verið svarað.

 

Loks í byrjun mars, eftir langa mæðu, lánaðist  að fá áheyrn félagsmálaráðherra. Mætti ég á fund hans ásamt framkvæmdastjóra Félags fasteignasala.

 

Fundurinn  var góður og gagnlegur og upplýsandi en skilaði því miður litlu eða engu.  

 

Í vor var sagt að vinna við frumvarp hæfist strax, starfshópur yrði skipaður og frumvarp lagt fram í haust. Það hefur ekki gerst og hefur heyrst ávinningur um að nú sé horft til vorþingsins en ekkert annað og meira virðist hafa verið gert.

 

Þannig stendur málið núna eftir 14 mánaða streð og alltaf syrtir í álinn.

 

En fyrst það tókst með kossi að vekja Þyrnirósu eftir 100 ára svefn stendur von til að vakning verði í þessu efni og verkin verði látin tala en ekki verði áfram látið reka á reiðanum og sitja við orðin tóm.

 

Við höfum tröllatrúa á félagsmálaráðherra og vitum að hann er öflugur og vill gott gera í þeim málum sem undir hann heyra. Það er hins vegar spurning hvað segja má um þá starfsmenn ráðuneytis hans sem hafa þessi mál á sinni könnu. Þeir virðast ekki vera mjög vakandi og áhugasamir og seinir til svara og verka.

 

Minnispunktar SHG

13. nóvember 2018.

 

Lesa Meira

Gallar í fasteignakaupum

Grein eftir Víði Smára Petersen, birt í morgunblaðinu 25. október 2018.

Gallar á fasteignum hafa á undanförnum árum ratað nokkuð oft í fjölmiðla, t.d. vegna raka- og mygluskemmda sem virðast orðnar algengari nú en áður. Tilgangur þessarar greinar er að varpa lítillega ljósi á þau flóknu lögfræðilegu álitaefni sem upp geta komið í málum af þessu tagi. Umfjöllunin verður einskorðuð við réttarsamband kaupanda og seljanda á grundvelli laga um fasteignakaup.

Lesa Meira

Dómur um lagnir í fjöleignarhúsi

Þann 3. október sl. féll dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2967/2017 þar sem deildi á um hvort lagnir fjöleignarhúss væru í séreign eða sameign.

Lesa Meira

V. uppfærslu á póstþjónustukerfum

Ágætu félagsmenn, 

 

vegna uppfærslu á tölvupóstþjóninum okkar hefur orðið smá seinkun á svörum við tölvupóstum, við biðjumst velvirðingar á þessu. Ef þú hefur grun um að tölvupósturinn þinn hafi ekki komist til skila, vinsamlegast sendu hann aftur. 

 

Kær kveðja,

Húseigendafélagið

Lesa Meira

Aðalfundur Húseigendafélagsins

Aðalfundur Húseigendafélagsins verður haldinn föstudaginn 18.5.  í sal

Ásatrúarfélagsins að Síðumúla  15, Reykjavík.

Fundurinn hefst kl. 16.

Lesa Meira

Framboð til stjórnar á aðalfundi Húseigendafélagsins 18. maí 2018

Lesa Meira

Stjórn húsfélaga og aðkeypt ráðgjöf og þjónusta.

Stjórn.

Í fjöleignarhúsum með sjö eignarhlutum eða fleiri skal vera stjórn sem kjörin er á aðalfundi sem halda skal fyrir apríllok.. Í minni húsum er ekki skylt að hafa stjórn og halda eigendur þá saman um stjórnartauma og má fela einum þeirra forsvar. Annars er aðalstjórn að jafnaði skipuð þremur mönnum og er einn þeirra formaður.  

 

Vandi fylgir vegsemd hverri.

Stjórnarseta í húsfélögum er ekki eftirsótt vegsemd. Stjórnarstörf eru tímafrek, vandasöm og oft vanþakklát. Einatt er grunnt á tortryggni, leiðindum og urg í húsfélögum og það er yfirleitt sælla að vera utan stjórnar. Það er nauðsynlegt að stjórnir og eigendur  yfirleitt kunni skil á  þeim reglum sem gilda um húsfélög og stjórn þeirra. Vitneskja um  rétt og skyldur í húsfélagi skapar skilning og samstöðu sem er forsenda fyrir friði og farsælu starfi, eigendum og húsi til hags og heilla.

Kjörgengi- og kjörskylda.

Kjörgengir eru eigendur, makar þeirra eða sambúðarfólk og nánir ættingjar. Lögræði er kjörgengisskilyrði.  Það er ekki skilyrði að stjórnamaður búi eða starfi í húsinu. Ekki er útilokað að fleiri úr sömu íbúð og fjölskyldu sitji saman í stjórn.  Á eigendum hvílir  skylda að taka kjöri en engin sérstök þvingunarúrræði eru tiltæk í því efni. Vitaskuld geta gildar ástæður verið fyrir synjun á að taka kjöri. Það er  ekki skilyrði fyrir kjöri að menn séu á aðalfundinum. Það eru ekki lagalegir meinbugir á því að fjarstaddir eigendur séu kjörnir í stjórn. Það er hins vegar ekki góð latína að kjósa menn í stjórn að þeim forspurðum eða gegn vilja þeirra.

 

Varamenn. Endurnýjun

Varamenn taka sæti aðalmanna við fráfall þeirra og langvinn forföll og þegar stjórnarmaður selur eign sína.  Hins vegar er hæpið að kalla til varamann þótt stjórnarmaður sé fjarverandi á einstökum fundi eða um skamman tíma. Ef stjórnarmenn verða færri en kjörnir voru og séu varamenn ekki til staðar, verður að boða til aukaaðalfundar til að kjósa stjórnarmenn og varamenn.  Hæpið að rétt sé að boða til aukaaðalfundar til að kjósa nýjan formann ef hann hverfur úr embætti. Verður að telja að stjórnin geti  kosið nýjan formann og varaformann úr sínum hópi fram til næsta aðalfundar.

Frávikning. Afsögn. Sala.

Það er spurning hvort húsfundur sé bær að taka ákvörðun um að setja stjórn eða einstaka stjórnarmenn af.  Með því fer hann með vissum hætti inn á valdsvið aðalfundar.  Samt sem áður er  það heimilt við sérstakar aðstæður. Það helgast af neyðarsjónarmiðum, eins konar félagslegum neyðarrétti. Það verður að vera unnt að bregðast við neyðaraðstæðum sem lama húsfélag og starfsemi þess. Þá getur stjórnarmaður hvenær sem er sagt af sér. Stjórnarmanni sem glatar félagsaðild sinni og kjörgengi með sölu á eign sinni, ber að segja af sér.

 

Verkefni og vald stjórnar.

Stjórnin fer með sameiginleg málefni milli funda. Stjórn getur takið ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu. Hún má láta framkvæma  minniháttar viðhald og viðgerðir og gert brýnar ráðstafanir.  Sé hins vegar um að ræða ráðstafanir og framkvæmdir sem ganga lengra ber stjórn áður að leggja þær fyrir húsfund.  Á það við um allar ráðstafanir og framkvæmdir, sem eru verulegar hvað varðar kostnað, umfang og óþægindi.  Gildir einu þótt um æskilegar og jafnvel nauðsynlegar ráðstafanir sé að ræða. Stjórn húsfélags hefur afar þröngar heimildir t.d. varðandi framkvæmdir og þær eru því  þrengri sem auðveldara er að kalla saman húsfundi. Stjórnin hefur ekkert sjálfstætt og endanlegt vald og félagsmenn geta skotið ákvörðunum hennar  til húsfundar.   

 

Stjórnarstörf eru yfirleitt ólaunuð.

Það er meginregla að stjórnarstörf eru ólaunuð. Þau bera blæ af þegnskyldu sem eigendum er almennt skylt að axla án sérstakrar þóknunar. Það er hins vegar óþolandi og óréttlátt þegar stjórnarstörf mæða árum saman á sömu mönnum meðan aðrir koma sér hjá stjórnarsetu.  Í slíkum tilvikum er sanngjarnt og eðlilegt að jafna metin með launum til stjórnar.. Menn geti þá valdið um að vinna stjórn eða borga.  Stjórn getur ekki á eignin spýtur tekið ákvörðun um laun til sín, heldur verður að taka slíka ákvörðun á húsfundi. Stjórnarstörf geta verið mismikil eftir stærð húsa og umfangi og eðli verkefna á hverjum tíma.  Stjórnarlaun geta eftir erli og vinnuframlagi verið eðlileg, sjálfsögð og sanngjörn í ofangreindu tilviki og fleirum, t.d  þegar staðið er í umfangsmiklum framkvæmdum.  

 

Aðkeypt þjónusta.

Stjórnin getur ef þörf krefur ráðið starfsmann sér til aðstoðar. Henni er einnig heimilt að fela sjálfstæðum verktaka að annast tiltekin stjórnarverkefni. Hún getur þannig keypt aðstoð og ráðgjöf sérfræðinga, s.s. verkfræðinga, bókara, endurskoðenda og lögmanna, sé það nauðsynlegt til að upplýsa mál og skapa frið og sátt og grundvöll fyrir upplýstum ákvörðunum.  Sé kostnaður við slíkt umtalsverður miðað við hagsmunina og fjárhag og stærð húsfélagsins verður stjórnin að fara fetið og fá samþykki húsfundar áður. Sem dæmi um verkefni sem stjórn getur ákveðið að kaupa án fundarsamþykktar er húsfundaþjónusta, þ.e aðstoð við fundahöld og fundastjórn. Það er oft nauðsynlegt að fá utanaðkomandi sérfræðinga til ráðgjafar og aðstoðar við fundi svo þeir fái sem best þjónað tilgangi sínum og hlutverki, sem er í grundvallaratriðum miðlun upplýsinga, skipti á skoðunum og ákvarðanataka.    

 

Útvistun á stjórnarskyldum.

Stjórnin hefur þröngar heimildir til að fela utanaðkomandi aðila verkefni sín og skyldur. Þær eru yfirleitt þannig og þess eðlis að hún verður að axla þær og efna sjálf og á eigin ábyrgð. Dæmi eru um að stjórn hverfi nánast undir huliðshjálm og vísi eigendum sem vilja upplýsingar og skýringar á  fyrirtæki út í bæ. Fjöleignarhúsalögin leyfa slíkt innan vissra marka og  varðandi tiltekin verkefni en víðtækt fráhlaup frá skyldum fer í bága við þau.. Ábyrgð stjórnamanna er rík og þeir geta ekki hlaupið frá henni  og skýlt sér þá bak við slíkan þjónustuaðila. Er rík ástæða til að hvetja stjórnir fjöleignarhúsa  til að gleyma ekki lagaskyldum sínum og ganga ekki of langt í þessu efni. Það getur dregið dilk á eftir sér, t.d. valdið lögleysi ákvarðana og ráðstafana og að greiðsluskylda stofnast ekki.  Stjórn eða einstakir stjórnarmenn geta með ráðslagi sínu bakað sér bótaskyldu gagnvart húsfélaginu eða einstökum eigendum.  

 

Gát gagnvart gylliboðum.

Þjónustufyrirtæki á þessu sviði eru rekin með hagnað að leiðarljósi en ekki af einskærri góðsemi. Það er gott og blessað. Þau þurfa skiljanlega að fá fyrir sinn snúð en þjónusta þeirra er oft dýrari en í upphafi virtist.  Oft eru samningar ekki eins hagstæðir og menn töldu í upphafshrifningu. Þegar allt kemur til alls og menn margfalda það sem margfalda þarf er kostnaðurinn oft meiri en menn óraði fyrir. Þjónustan er svo ofan í kaupið ekki alveg ein góð og mikil og menn töldu og hagurinn minni.  Er stjórnum húsfélaga rétt að vera á varðbergi gagnvart gylliboðum á þessu sviði sem öðrum. Það eru hákarlar í þessu hafi og stundum virðast gyllboð um inngöngu nánast vera lokkunarbeita til að ná í framhaldinu í viðhaldsverkefni fyrir tengd eða útvalin verktakafyrirtæki þar sem einatt eru stórar fjárhæðir í húfi.  Nokkur fyrirtæki hafa haslað sér völl á þessu sviði og virðast sum betri en önnur eins og gengur. Stundum virðist skorta á lagaþekkingu og vönduð og ábyrg vinnubrögð hjá þessum fyrirtækjum sem hefur dregið dilk á eftir sér. Um  það vitna dómar og kærunefndarálit.  

 

 

Upplýsingaskylda stjórnar.

Sú skylda hvílir á stjórn  að hún haldi eigendum upplýstum um allt sem máli getur skipt um fjármál og rekstur húsfélagsins og starfsemi þess. Er henni skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varða sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Þessi upplýsingarskylda er nauðsynleg til að eigendur geti sett sig inn í mál og gætt hagsmuna sinna og veitt stjórninni eðlilegt aðhald.  Starfsemi húsfélags á að vera gegnsæ og þar eiga engin leyndarmál eða pukur að viðgangast. Upplýsingar geta bæði verið gefnar á fundi og utan funda, munnlega eða skriflega eða með afhendingu gagna eða ljósrita.  Er stjórn skylt að láta eigendum í té ljósrit fundargerða, bæði húsfunda og stjórnarfunda. Hafa eigendur rétt til að skoða bækur félagsins, skjöl, reikninga og bókhaldgögn

 

Lögfylgni og góð ráðgjöf.

Það verður seint ofpredikað fyrir forsvarsmönnum húsfélaga að fara að lögum í hvívetna og leita sér góðrar lögfræðilegrar ráðgjafar þegar á reynir og álitaefni koma upp í stað þess að ana áfram í lögvillu og enda í ógöngum sem sneiða hefði mátt hjá með ábyrgri leiðsögn.  

Brýn nauðsyn er á því fara rétt og löglega að í öllu varðandi rekstur og fjármál húsfélaga, s.s. töku ákvarðana, fundahöld, stjórnun, rekstur.  Afleiðingarnar geta orðið alvarlegar ef menn verða viðskila við lögin. Það er afar mikilvægt fyrir forsvarsmenn húsfélaga að kynna sér vel þau lög sem um húsfélög gilda og leita ráða hjá góðum ráðgjöfum sem vita og kunna.

 

Húsfunda- og lögfræðiþjónusta.

Lögfræðiþjónusta er þungamiðjan í starfsemi Húseigendafélagsins. Félagið býr yfir mikilli og sérhæfðri þekkingu og reynslu í fasteignalögfræði, ekki síst í málum fjöleignarhúsa og húsfélaga.

Það er skynsamleg og ódýr hagsmunagæsla og tryggingarráðstöfun fyrir húsfélög að ganga í félagið og öðlast með því aðgang að sérhæfðri lögfræði- og húsfundaþjónustu, sem tryggir lögmæta húsfundi og að rétt sé staðið að töku ákvarðana. Fundarstjóri er sérfróður lögfræðingur  sog lögfræðingar félagsins aðstoða við allan undirbúning fundar.

Með því nýta þjónustu Húseigendafélagsins geta húsfélög, eigendur og viðsemjendur, treyst því að fundur sé löglegur og ákvarðanir séu rétt teknar og lögum samkvæmt. Þannig má sneiða hjá ógöngum og tjóni.  Það skal átréttað að félagsaðild er forsenda fyrir þjónustu félagsins.    

 

_________________________

 

 

Sigurður Helgi Guðjónsson hrl.

Form. Húseigendafélagsins.

Apríl 2018.

Lesa Meira

HÚSEIGENDAFÉLAGIÐ.

„Það er létt að gera rétt“

Lesa Meira

Er matsmannakerfið okkar ógnun við réttaröryggi

Er matsmannakerfið okkar ógnun við réttaröryggi

Grein eftir Ríkharð Kristjánsson, sem birt var í morgunblaðinu þann 22. mars síðastliðinn. 

 

Lesa Meira

Dómur Hæstaréttar nr. 744/2015 – Krafa um endurgreiðslu á leigugreiðslum og hreinsun á innbúi vegna myglusvepps.

Dómur Hæstaréttar nr. 744/2015 – Krafa um endurgreiðslu á leigugreiðslum og hreinsun á innbúi vegna myglusvepps.

Lesa Meira

Það kemur með kalda vatninu

Á Íslandi er gnægð vatns og er það talið  ein af auðlindum þjóðarinnar.

Lesa Meira

Gististarfsemi í fjöleignarhúsi. Ónæði vegna útlendinga - Grein eftir Hauk Örn Birgisson

Þann 12. maí 2016 birtist fróðleg grein eftir Hauk Örn Birgisson hæstaréttarlögmann um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-2597/2015 um gististarfsemi í fjöleignarhúsi. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

Lesa Meira

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-2597/2015 - Gististarfsemi í fjöleignarhúsi

Nýlega féll dómur þar sem niðustaðan var sú að óheimilt sé að reka skammtíma gististarfsemi í fjöleignarhúsi án samþykki allra eigenda þess.  

Lesa Meira

Bítið á Bylgjunni - Samstarf Húseigendafélagsins og Leiguskjóls.

Bryndís Héðinsdóttir lögmaður Húseigendafélagsins og Vignir Már Lýðsson frá Leiguskjóli ræddu um húsaleigusamninga og ábyrgðartryggingar þeirra.  

Hægt er að smella hér og hlusta:

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP46291

 

Það er hagur leigusala og leigutaka að vandað sé vel til verka við gerð leigusamnings. Mikilvægt er að leigusali leggi til grundvalla greinagóðan leigusamning í samræmi við Húsaleigulög. Það er í mörg horn að líta við gerð leigusamnings og til að einfalda leigusölum og leigutökum ferlið ákváðu Húseigendafélagði og Leiguskjól að efla til samstarfs í tengslum við leigusamningsgerð, ábyrgðatryggingu leigutaka og ástandslýsingu á leiguhúsnæði. Með samstarfinu eru góð vinnubrögð tryggð þar sem hagsmunum beggja aðila er gætt.

Mikilvægt er, bæði fyrir leigusala og leigutaka, að gerð sé ástandsskoðun á hinu leigða húsnæði í upphafi leigutíma. Það kemur í veg fyrir ágreining um ástand hins leigða, sem upp getur komið við lok leigusamnings og afhendingu húsnæðis. Kostnaðurinn við úttekt er skipt á milli leigutaka og leigusala og greiðir hvor um sig 9.450 kr. eða 18.900 kr. í heildina.


Kostnaður við leigusamningsgerðina er 34.600 kr. fyrir félagsmenn Húseigendafélagsins. Þeim sem hugnast að ganga að þessari þjónustu við leigusamningsgerð, ásamt tryggingu Leiguskjóls og úttekt geta gengið  í félagið og er þá árgjaldið innifalið í leigusamningsgerðinni.

Það er hagur leigutaka og leigusala að leigutakinn sé með ábyrgðartryggingu hjá Leiguskjóli. Leigusali er með tryggingu sem nemur a.m.k. þremur mánuðum fyrir vangoldinni leigu eða skemmdum á hinu leigða. Hagur leigutaka er sá að hann þarf ekki að leggja fram bankatryggingu sem reynist þung byrði fyrir marga, en þess í stað greiðir leigutaki Leiguskjóli þóknun mánaðarlega til að viðhalda ábyrgðinni.

Nánari upplýsingar um Leiguskjól má finna hér: http://leiguskjol.is/um-leiguskjol/


 

Lesa Meira

Aðalfundur Húseigendafélagsins: Erindi um tryggingaiðgjöld á fasteignir.

Aðalfundur Húseigendafélagsins: Erindi um tryggingaiðgjöld á fasteignir.

Lesa Meira

Aðalfundir húsfélaga

Nú stendur yfir tími aðalfunda í húsfélögum sem halda ber einu sinni á ári fyrir lok apríl. Þar eru teknar ákvarðanir um hagsmuni og þýðingarmikil mál sem hafa í för með sér miklar skuldbindingar og fjárútlát. 

Lesa Meira

Húsfundaþjónusta Húseigendafélagsins

Nú stendur yfir tími aðalfunda í húsfélögum þar sem einatt eru teknar ákvarðanir um mikilvæg mál og kostnaðarsamar framkvæmdir.

Lesa Meira

Dómur Hæstaréttar nr. 192/2015 - Viðgerðir í séreignarhluta

Nýlega féll dómur þar sem niðurstaðan var sú að íbúðareiganda var skylt að veita verktaka óhindraðan aðgang að séreignarhluta sínum í því skyni að skipta um glugga til að koma í veg fyrir áframhaldandi leka og skemmdir á íbúð fyrir neðan.

Lesa Meira