Gerð leigusamninga hjá Húseigendafélaginu

Húseigendafélagið hefur í 96 ár gætt hagsmuna leigusala hér á landi og stuðlað að auknu öryggi og heilbrigðum viðskiptum á leigumarkaði og barist fyrir réttarbótum á þessu sviði. Lögfræðingar félagsins eru sérfróðir í húsaleigumálum og  starfsmenn þess búa yfir mikilli þekkingu og reynslu. Félagið gerir leigusamninga og veitir ráð og upplýsingar og kannar skilvísi leigjenda. Þá aðstoðar félagið leigusala þegar vanskil og aðrar vanefndir verða. Þessi þjónusta er eftirsótt af  þeim sem vilja hafa leigumál á hreinu. 

Það sem einkennir húsaleigusamninga er misræmið á milli framlaga og áhættu aðilanna. Leigusalinn lætur leigjanda í té verðmæti upp á tugi milljóna en fær á móti  loforð um tiltölulega lágar greiðslur m.v. verðmæti eignarinnar. Áhætta leigusalans er því mjög miklu meiri en leigjandans. Miðað við það sýna leigusalar oft ótrúlega mikið andvaraleysi við val á leigjendum og gerð leigusamninga. Þeir vanrækja stundum að gera skriflega samninga og ganga hvorki eftir meðmælum né tryggingum og afhenda bláeygir bláókunnugu fólki lykla að verðmætri eign. Fallið ekki fyrir  fagurgala. "Eins og hann kom nú vel fyrir" er algengt viðkvæði. Allir sýna sparihliðina í upphafi. Það er hægurinn að tala stórt og lofa miklu ef ekki er ætlunin að standa við neitt.