Í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness þar sem konu var gert að flytja af heimili sínu, taka með sér allt sem henni tilheyrir og selja eignarhluti sína í umræddu húsi á grundvelli 55. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í greininni segir að gerist eigandi, annar íbúi húss eða afnotahafi sekur um gróf eða ítrekuð brot á skyldum sínum gagnvart húsfélaginu eða eigendum, einum eða fleirum, þá getur húsfélagið með ákvörðun skv. 6. tölul. B-liðar 41. gr. lagt bann við búsetu og dvöl hins brotlega í húsinu, gert honum að flytja og krafist þess að hann selji eignarhluta sinn.
Um er að ræða mál sem byrjaði hjá Húseigendafélaginu í júní 2022 þar sem húsfundaþjónusta Húseigendafélagsins var nýtt. Í framhaldinu tóku við bréfaskriftir. Ánægjulegt er að sjá að niðurstaða sé komin í málið. Ekki eru mörg dæmi um það í íslenskri réttarsögu að 55. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 sé beitt.
Fyrsti dómurinn þess efnis féll haustið 2011, þegar kona var dæmd til að selja íbúð sína á Hverfisgötu vegna óþrifnaðar. Við fögnum því niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness og vonumst til að niðurstaðan verði til þess að fleiri eigendur sjái sér fært um að leita réttar síns í samskonar málum.
Sigurður Orri Hafþórsson lögmaður Húseigendafélagsins fór í viðtal hjá Rúv í morgun þar sem hann ræddi um niðurstöðu málsins og hvort að greina megi aukningu á þessum málum sem rata fyrir dómstóla. Viðtalið er mjög fróðlegt og má nálgast á helstu miðlum Rúv.
Hér er hægt að nálgast dóminn: https://www.heradsdomstolar.is/domar/domur/?id=faac4740-3b30-4ace-a4ca-958ce42f468c
Mynd: úr myndasafni Rúv.