Húseigendafélagið rekur sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn sína á þeim réttarsviðum, sem varða fasteignir og eigendur þeirra. Lögfræðiþjónustan hefur verið þungamiðjan í starfsemi félagsins síðustu áratugi. Fyrir lögfræðiþjónustuna er tekin þóknun samkvæmt tímagjaldi sem er verulega lægra en hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum.
Málaflokkar
Það eru aðallega eftirtaldir málaflokkar koma til kasta lögfræðiþjónustunnar:
- Mál sem snerta fjöleignarhús og eigendur þeirra.
- Húsaleigumál.
- Mál vegna vanefnda í fasteignaviðskiptum, einkum gallamál.
- Mál vegna vanefnda byggingaraðila og verktaka.
- Mál gagnvart byggingaryfirvöldum og öðrum stjórnvöldum.
- Grenndarmál af ýmsum toga.
- Tryggingamál
- Skipulagsmál
Gjaldskrá
Viðtalstími 1/2 klst. | 13.000 kr. |
Flýtiviðtalstími 1/2 klst. | 19.500 kr. |
Vinna lögfræðings, hver klst. | 17.500 kr. |
Forfallagjald vegna viðtalstíma við lögfræðing | 8.500 kr. |
Leigusamningur, íbúðarhúsnæði | 43.600 kr. |
Leigusamningur, atvinnuhúsnæði, lágmarksgjald | 70.200 kr. |
Svör við fyrirspurnum sem berast í tölvupósti eða símleiðis eru almennt gjaldfrjáls. Sé fyrirspurn hins vegar beint til lögfræðings er tekið gjald fyrir svarið.
Félagsmenn hjá félaginu fá verulega niðurgreidda lögfræðiþjónustu og er félagsgjaldið fljótt að skila sér til baka með því. Fyrir lögfræðivinnu utan skrifstofu og/eða utan venjulegs vinnutíma reiknast allt að 50% álag á tímagjaldið.
Ef viðtalstími er bókaður en ekki nýttur, og forföll eru ekki boðuð, áskilur félagið sér rétt til þess að innheimta gjald fyrir tímann.
Yfirleitt er miðað við 1 – 4 klukkustunda vinnu við hvert mál. Séu mál umfangsmeiri og tímafrekari falla þau almennt utan marka lögfræðiþjónustunnar og er þeim þá vísað til starfandi lögmanna enda er félagið ekki lögfræðistofa heldur hagsmunafélag sem veitir félögum sínum niðurgreidda lögfræðiaðstoð að ákveðnu marki.
Nánar um lögfræðiþjónustuna
Lögfræðiþjónustan er mjög eftirsótt og því þarf að setja henni ákveðnar skorður. Hún er aðallega hugsuð sem “fyrsta hjálp”, þ.e. að aðstoða félagsmenn við að skilgreina vandamál sín og átta sig á réttarstöðu sinni og leiðbeina þeim veginn áfram. Ef mál vinda upp á sig og verða viðamikil og tímafrek, þá verður félagið að meginstefnu til að vísa þeim til starfandi lögmanna. Rekstur dómsmála fellur almennt utan ramma lögfræðiþjónustu félagsins. Eftirspurn eftir lögfræðiþjónustunni er mikil og algengt er að tugir nýrra mála berist í viku hverri. Sum erindi eru þess eðlis að hægt er að afgreiða þau í einum viðtalstíma, en flest kalla þau á meiri vinnu, yfirlegu, rannsóknir, gagnaöflun, úrvinnslu, skjalagerð og skriftir, bréfaskriftir, álitsgerðir, fundahöld o.fl. Vinna við einstök mál getur því verið frá hálfri klukkustund eða jafnvel minna og allt að mörgum klukkutímum eftir eðli og umfangi.
Leigumál
Húseigendafélagið býður félagsmönnum sínum upp á þjónustu í húsaleigumálum. Við útleigu er raunin sú að áhætta leigusala er mun meiri en leigutaka enda er endurgjaldið sem leigutaki lætur í té einungis lítið brot af verðmæti eignarinnar. Að fá aðstoð við útleigu dregur úr fjárhagslegri áhættu vegna vanskila og skemmda á leiguhúsnæði. Þjónusta Húseigendafélagsins er mjög hagkvæm leið til að tryggja öryggi við útleigu.
Húseigendafélagið tekur að sér gerð leigusamninga
Lögfræðingar félagsins sjá til þess að leigusamningur leigusala sé þannig úr garði gerður að hann verndi hagsmuni hans þegar á reynir og að tryggingar fyrir leigufjárhæð og/eða skemmda sé fullnægjandi.
Kostir þess að lögfræðingar félagsins sjái um gerð löggilts leigusamnings:
- Þeir miðla reynslu sinni og gefa upplýsingar um réttindi og skyldur aðila, lagaatriði og ráðstafanir, s.s. tryggingar o.fl.
- Þeir leiðbeina leigusölum í rétta átt hvað úttektaraðila á leiguhúsnæði varðar.
- Leigusala og leigutaka býðst að skrifa undir leigusamning á skrifstofu Húseigendafélagsins.
- Könnun á skilvísi leigjenda verður gerð.
Lögfræðingar Húseigendafélagsins geta einnig komið til aðstoðar ef vandamál koma upp á leigutímanum eða við lok hans, t.d. vanskil á húsaleigu, greiðsluáskorun, riftunaryfirlýsing, uppsagnir o.fl.
Athugið að ef leiguvanskil eru, mælum við með að hafa samband fyrr en síðar.