Oft grunnt á því góða. Málamiðlun nauðsynleg.
Í fjöleignarhúsum er fólk undir sama þaki og inn á gafli hvert hjá öðru og deilir húsi og friði, gögnum og gæðum og kostum og kynjum, með öðrum eigendum. Slíkt eignaform og sambýlisfyrirkomulag hefur marga kosti en býður á hinn bóginn upp á vandamál, sem flest má rekja til mannlegs breiskleika og skorti á þeim þroska, tillitssemi og umburðarlyndi, sem er forsenda fyrir heilbrigðu og farsælu sambýli. Gott fjölbýli byggist á sífelldri málamiðlun og línudansi þar sem áðurnefnd gildi spila stærstu rulluna.
Allt mannanna brölt getur valdið ónæði. Kynleg mál. Ánægja eins er annars ami.
Til Húseigendafélagins rata mál í öllum regnbogans litum og af öllum stærðum og gerðum. Allt frá léttum pirringi upp í háalvarleg mál þar sem miklir hagsmunir, fjárhagslegir og mannlegir, eru í húfi. Öll mannleg athafnasemi getur þróast í ónæði gagnvart sambýlingum. Það getur verið hávaði, sóðaskapur, lykt, reykur, titringur og hvaðeina. Það er gömul saga og ný að sumir eru fyrirferðarmeiri í því efni en aðrir og aðrir viðkvæmari en sumir. Þar sannast hið fornkveðna að það sem einum er til ánægju og yndisauka getur verið öðrum til ama, óþæginda og leiðinda. Það er oft skammt öfgana á milli í fjölbýli.
Lífið og samskiptin í fjölbýli eru línudans. Það er fín línan milli athafnafrelsis og hagnýtingar eins og friðar annars. Jafnvægið er hárfínt og viðkvæmt. Þar gildir hið gullna meðalhóf sem mörgum gengur svo tregt að finna og rata. Mörkin milli athafnafrelsis eins og friðar.
Skötustækja.
Skötusuða í fjölbýlishúsum jaðrar við villimennsku. Það er frekja, yfirgangur og tillitsleysi að sturta yfir granna sína viðurstyggilegri stækju sem smýgur alls staðar og tekur sér bólfestu i fatnaði, hverjum krók og kima, íbúðum, húsgögnum og sameign fjölbýlishúsa.
Eru dæmi þess að stækjan hafi verið svo illvíg og lífseyg að hún hafi verið til ama frá Þorláksmessu fram á vor eða sumar. Hefur þurft að mála sameign og skipta um teppi til að komast fyrir stækjuna. Svona barbarískar átveislur eiga ekki heima í fjölbýlishúsum. Ættu að vera langt upp í óbyggðum fjarri siðuðu fólki.
Kæst skata er ekki matur, hvað sem hver segir. Hún er elduð í því skyni að misbjóða, ögra og hrekkja fólk með heilbrigða bragðlauka og lyktarskyn. Sjálfsagt finnst öllum skata óætur viðbjóður. Þegar menn segjast vera að Vestan og að vondur matur sé góður, eru þeir undantekningarlítið að ljúga. Þegar menn koma þessum kræsingum varla niður og tárin streyma um diska og borð þá er sko mest gaman.
Menn virðast halda að það sé þjóðlegt að borða vondan illaþefjandi mat, ef mat skyldi kalla. Þessi villimennska á Þorláksmessu er víst ekki gamall og gróinn siður, nema þá á vestfjörðum. Það skyldi þó ekki vera að skötulyktin hafi stuðlað að eyðingu byggða og fólksflótta fyrir vestan.
Það er lítið við því að segja að fólk að fólk sjóði kæsta skötu í sveitum og á annesjum fjarri siðuðu fólki og í einbýlishúsum í þéttbýli þar sem lyktin ætlar ekki aðra að drepa en þátttakendur skötublótinu. Hins vegar er skötusuða í fjölbýlishúsum svo mikill ama- og ónæðisvaldur að sambýlisfólkinu að því er óskylt að una því. Húsfélagið getur þá brugðist við með banni við skötusuðu eða sett við henni takmarkanir.
Menn hafa bent á að þetta sé tímabundið ónæði og sýna beri umburðarlyndi. Það hafa margir gert lengi og umborið skötustækju árum saman. Þótt skötusuða sé bundin við ákveðinn árstíma og yfirleitt einn dag ársins þá gefur það ekki ótakmarkaða heimild til að hrauna yfir sambýlisfólkið.
Eitt stófelld brot á ári er oft alvarlegra en fleiri smærri. Það má líka leiða líkum að því að þeir sem eru skeytingarlausir við granna sína með skötusuðu séu almennt ekki ýkja tillitsamir og hófsamir í öðrum atriðum. Þeir sýna gjarnan annars konar yfirgang á öðrum árstíma. Sem sagt Skötusuða og skötublót á ekki heima í fjölbýlishúsum nema allri íbúar séu kátir með það.
Einstaka skötudýrkandi hefur reynt að draga úr ónæðinu með ýmsu móti. Er það vel og virðingavert. Menn haf reynt að sjóða skötu á prímus og útigrillum út á svölum og
í bílskúrum og notað sérstakar tilfæringar við suðuna sem þeir telja að drepi niður lyktina.
Það er sjálfsagt rétt að með ýmsu móti má drag úr lyktarmengun í skötulíki. Þótt öll slík viðleitni sé þótt til bóta þá dugir hún ekki. Það má líka spyrja hvers lags matur er það eiginlega sem ekki er hægt að elda inni og elda þarf úti og á grillum og prímusum. Getur það verið hollur mannamatur?
Húsfundur setur húsreglur.
Samkvæmt lögum um fjöleignarhús skal stjórn húsfélags leggja fyrir húsfund reglur um hagnýtingu sameignar og eftir atvikum séreigna. Lögin hafa að geyma meginreglur sem útfæra má nánar í húsreglum en þær mega alls ekki fara í bága við grundvallarreglur fjöleignarhúsalaga. Á það bæði við um réttindi og skyldur meirihluta og minnihluta, húsfélags og einstakra eigenda.
Meðal þýðingarmestu meginreglna og sjónarmiða má nefna: Séreign og sameign má að meginstefnu til aðeins hagnýta til þess sem þær eru ætlaðar. Eigendum er skylt til að taka tillit til annarra eigenda við hagnýtingu séreigna og sameigna og gæta ber þess að valda sameigendum sínum ekki óþarfa óþægindum og ama.
Þótt húsreglur fjalli fyrst og fremst um afnot sameignarinnar þá getur húsfélag einnig sett reglur um afnot séreigna en því eru verulegar skorður settar. Eigandi hefur einkarétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni og húsfélagið getur ekki sett reglur sem fela í sér meiri og víðtækari takmarkanir á eignarráðum hans en leiðir af fjöleignarhúsalögum og almennum reglum eignaréttar.
Sala. Leiga. Reykingar. Er Þorláksmessuskatan í hættu?
Sem dæmi um of mikið inngrip í séreignarréttinn eru reglur um að ekki megi leigja út íbúðir í húsinu eða að húsfélagið þurfi að samþykkja það og leigjandann. Sama er ef sala íbúðar er háð samþykki húsfélags. Allsherjar bann við reykingum í íbúðum og bann við skötusuðu með tilheyrandi nasayndi á Þorláksmessu gengi líka of langt. Ef að líkum lætur verður reykingum úthýst úr fjölbýlishúsum innan fárra ára. Almenningsviðhorfið fer eins og óð fluga í þá áttina. Það er spurning hvort lyktarmengun í skötulíki fari ekki sömu leið og verði úthýst úr mannabústöðum eins og hverjum öðrum viðbjóði.
Jólaljósvíkingar skreyta liðugt.
Skreytingafaraldur.
Þegar aðventan brestur á og jólin nálgast rennur á marga húseigendur skreytingaræði sem breiðist út og magnast með hverju árinu. Mörgum hleypur kapp í kinn í desember og það endar einatt í öfgafullri keppni milli nágranna og er ekkert til sparað nema helst í smekkvísi.
Ljósadýrð lýðinn tryllir.
Þeir sem fara halloka í jólaljósastríðinu reyna svo að jafna metin um næstu jól. Strax með nýju ári er farið að leggja drög að því. Svo er pantað og pantað og beðið og beðið og bráðum koma blessuð jólin aftur og ljósadýrðin lýðinn tryllir.
Fjölbýlishús.
Í fjölbýlishúsum deila menn um hvað sé hæfilegt í ljósaskreytingum. Hófsamir vilja engar eða litlar skreytingar en aðrir telja hús aldrei ofskreytt. Á milli stendur hinn þögli ráðvillti meiri hluti. Meginreglan er sú að meirihlutinn ræður því hvernig og hversu mikið húsið skuli lýst og skreytt. Eru allir eigendur bundnir við slíka ákvörðun og skyldir að taka þátt í kostnaðinum.
Hóf er best í hófi..
Þetta er þó háð því að lýsingin og skreytingarnar séu í sæmilegu hófi miða við það sem gengur og gerist í sambærilegum húsum. Sem þýðir að ef menn vilja standa fyrir ljósadýrð sem er yfirgengilegri og dýrari en í sæmilegu hófi getur talist, þá getur þurft samþykki allra eigenda. Í þessu efni eru gráu svæðin mörg og enda er það afstætt og breytilegt frá einum tíma til annars hvað telst eðlilegt og hófstillt og hvað óhóf. Sem betur fer ná íbúðareigendur yfirleitt lendingu í þessu sem allir una við eða láta sig hafa.
Bann við jólaskreytingum.
Dæmi um öfga í hina áttina er þegar húsfélag ákveður að hafa engar sameiginlegar ljósaskreytingar og leggur blátt bann við því að eigendur setji upp eigin ljós og dúllerí á svalir sínar og glugga. Slíkt almennt bann við einkaskreytingum fær ekki staðist. Hins vegar getur húsfélag sett nánari reglur um prívat ljósaskreytingar og sett þeim skorður. Það þekkist líka að arkitektar banni jólaskreytingar á húsum svo sköpunarverk þeirra verði ekki saurguð og afskræmd með jólaskrauti.
Framlag til líknarmála í stað jólaskreytinga.
Dæmi er um að húsfundur ákveði að hafa engar sameiginlegar jólaskreytingar og gefa þess í stað úr hússjóði til líknarmála. Það er voða jólaleg og falleg hugsun og gengur alveg upp ef einhugur er. Hins vegar fellur slík góðmennska og góðverk utan valdsviðs húsfundar. Það má ekki nota peninga úr hússjóði til slíks og enginn verður knúinn til góðverka um jólin fremur endranær.
Jólatrúleysingjar.
Þótt einhver íbúðareigandi haldi jólin ekki hátíðleg af trúarástæðum og telji bramboltið í kringum þau villutrú og af hinu illa, þá verður hann almennt að lúta meirihlutanum og taka þátt í kostnaðinum við herlegheitin. Reglur fjöleignarhúsalaga miðast við venjulegt fólk og meðalhóf og eigendur með sérstöðu og sérþarfir eiga ekki kröfu á því að aðrir eigendur taki tillit til þess og lagi sig að þeim.
Öskrandi og baulandi skoffín.
Það eru aðallega einbýlishúsaeigendur sem ganga af göflum í þessu. Það er ekki bara ljósin, heldur planta menn á hús og lóðir allskyns drasli, skoffínum og líkneskjum. Sumir hafa sett í þetta hljóðkerfi. Jólasveinar skríkja og flissa undan mömmukossum á milli þess sem þeir öskra og hóa, hreindýr baula, bústinn og berrassaður erkiengill djöflast á hörpu og vitringarnir þrír, Jasper, Kasper og Jónatan, með blandi í poka og stjörnu í augum. María mey og barnið hennar meðyfirþyrmandi geislabauga, Jósep greyið, í fæðingarþunglyndi veltir vöngum um það hvernig börnin verði eiginlega til.
Óhræsið Stúfur.
Svo er líka vélbúnaður í þessu og fígúrurnar geifla sig afkáralega og hreyfast með spastískum hætti. Fyrir nokkrum árum kom Stúfur til kasta Húseigendafélagsins. Hann hafði tekið sér bólfestu í reykháf og skaust í sífellu ofaní og uppúr honum með skerandi skrækjum og góli. Nágranni var við að fara á hjörum yfir á þessum og spurði örvinglaður hvort ekki væri löglegt að plamma á svona óhræsi með haglabyssu. En því miður reyndist það ekki vera óhætt því Stúfur er alfriðaður.
Jólaumburðarlyndi. Kristileg glaðværð.
Svona lagað getur plagað þá mjög sem í nágrenninu búa og vilja hafa frið og næði. Það verður að líta til þess að hér er ekki um viðvarandi ástand að ræða og að menn hafa víst aukið athafnafrelsi um jól og leyfist þá sitthvað sem á öðrum tímum væri óheimilt. Þótt fólk umberi margt sem fylgir jólabramboltinu þá vilja sumir meina að menn eigi aukinn rétt til friðar og næðis um jólin og sá réttur hljóti að vera ríkari en réttur jólaberserkja til að skrumskæla þessa hátíð. Hinn þögli meiri hluti fyllist yfirleitt taumlausu umburðarlyndi og nágrannakærleik um jólin og flestu öllu með kristilegri glaðværð.
Grenndarreglur. Hagsmunamat.
Um jólaberserki og jólabrambolt í sérbýli gilda engar skráðar réttarreglur. Þetta ónæði er í fyrsta lagi sérstakt vegna þess að það er tímabundið. Hér koma til álita óskráðar reglur grenndarréttar sem gilda um hagnýtingu fasteigna og setja eigendum þeirra skorður af tilliti til nágranna. Eigandi fasteignar má gera það á sinni eign sem er venjulegt og eðlilegt og nágranninn verður að sætta sig við það. Við mat á því hvort menn fara yfir strikið og valda nágranna sínum ónæði, ama og röskun umfram það sem hann verður að þola og venjulegt er, verður að horfa til þess sem almennt viðgengst og tíðarandinn telur við hæfi á hverjum tíma.
Lagaleg Úrræði.
Þótt ónæði geti verið umtalsvert og í sumum tilvikum óþolandi þá er yfirleitt ekki tími til að grípa til lagalegra úrræða. Yfirleitt er látið sitja við röfl og kvörtunarbréf en eins er hægt að leita til lögreglu ef svefnfriði er raskað. Í sumum tilvikum hafa nágrannar skrautmanna orðið fyrir átroðningi, usla og jafnvel tjóni af völdum þeirra sem engin lóðarmörk virða til að komast til að komast í námunda við dýrðina. Í slíkum tilvikum gæti hugsanlega komið til skaðabótaábyrgðar hins skrautglaða húseigenda. Það eru líka dæmi um að jólaskrauthallir hafi valdið umferðaröngþveiti og jafnvel árekstrum.
Náttúruspjöll. Ljósadýrðin ýmsu spillir.
Það er ekki síst ljósadýrðin sem nágrannar kvarta yfir. Þegar blikkandi diskóljós í regnbogans litum lýsa upp svefnherbergi og úti húkir María mey með barnið sitt og englar eru á flögri og þrír vitringar á gæjum eftir stjörnum í gluggum og undir drynur baul jólasveina og hreindýra þá ærir slíkt óstöðugan og hefur náttúruspjöll í för með sér. Það er ekki uppörvandi að reyna að standa sína plikt undir svona nágauli og þurfa að stíga fram í afhjúpandi og afskræmandi diskóljósi sem magnar alla keppi, fellingar og hrukkur þannig að maður líkist helst Michelín manninum. Menn hafa látið deigan síga af minna tilefni.