Munu allir vinna eða munu allir tapa?

Af fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram fyrir árið 2022 er ekki að sjá að 100% endurgreiðsla af vinnu verði áfram á næsta ári. Tinna Andrésdóttir, lögfræðingur Húseigendafélagsins og Jóhanna Klara frá Samtökum iðnaðarins fjalla hér um þetta.  Hér að neðan má annars sjá umsögn Húseigendafélagsins um þetta málefni.

Umsögn Húseigendafélagsins um fjárlagafrumvarpið viðvíkjandi virðisaukaskatt af viðhaldsvinnu við íbúðir o.fl. Átakið: „ALLIR VINNA“.

Átakið Allir vinna, þ.e. full endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna viðhaldsvinnu við íbúðarhúsnæði o.fl., hefur staðið vel undir nafni og skilað mjög góðum árangri í alla staði. Viðhaldi og endurbótum hefur verið betur sinnt og dregið hefur mjög úr reikningslausum viðskiptum og skattsvikum, þ.e. svartri starfsemi á þessu sviði. Þetta átak hefur reynst líflína á erfiðum tíma fyrir iðnaðarmenn og fyrirtæki. Það hefur stuðlað að betri skattskilum, öryggi og heilbrigðum viðskiptaháttum, ásamt því að skapa störf og viðhalda verðmæti eigna.

Átakið var á laggir sett til að hvetja til framkvæmda og draga þannig úr atvinnuleysi í kjölfar kórónuveirufaraldursins, og átti að vera í gildi út þetta ár. Það hefur staðið vel undir nafni, sannað gildi sitt og komið öllum til góða. Átakið hefur aukið verðmæti fasteigna, stutt við starfsemi einyrkja og minni fyrirtækja, bætt skattskil, viðskiptaöryggi og stuðlað heiðarlegum viðskiptum og eðlilegri samkeppni.

Nú eru blikur á lofti og verður ekki betur séð en á döfinni sé að fella þessa ívilnun niður fyrir næsta ár. Það yrði til óheilla fyrir alla sem málið varða. Þá myndu allir tapa í stað þess að vinna.

Flestir hafa gengið út frá því að þessi ívilnun myndi haldast út næsta ár og miðað áætlanir sínar við þær væntingar. Á það ekki síst við húsfélög, sem hyggja mörg á viðhaldsframkvæmdir á næsta ári í trausti þess að skattaívilnun þessi yrði framlengd. Sama er að segja um aðra íbúðaeigendur. Eins og mörgum má vera kunnugt um var örðugt fyrir húsfélög að koma sér saman um viðhaldsmál þegar samkomutakmarkanir stóðu ítrekað yfir og hafa fjöleignarhús í raun ekki fengið næg tækifæri til að nýta sér skattaívilnunina. Benda má á að aðdragandi framkvæmda getur verið ansi langur hjá fjöleignarhúsum þar sem oft er þörf á úttekt og útboðsferli áður en gengið er til samninga við verktaka. Mörg viðhaldsáform næsta árs verða í uppnámi og óvissu ef ívilnun þessi verður afnumin. Sama má segja um viðhaldsiðnaðinn í heild sinni en þar eru mörg fyrirtæki og iðnaðarmenn í viðkvæmri stöðu.

Í aðdraganda Alþingiskosninga lýstu bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn yfir vilja til áframhalds þessarar ívilnunar. Þess vegna voru og eru flestir í góðri trú. Miklar vonir eru því enn bundnar við að frumvarpi fjárlaga verði breytt þannig að ekki þurfi að endurskoða eða jafnvel hætta við húsnæðisuppbyggingu og viðhaldsverkefni sem og hönnun á nýjum verkefnum.

Húseigendafélagið skorar á stjórnvöld og Alþingi að framlengja þessa ívilnun þannig að hún haldist a.m.k. út næsta ár.

Í Húseigendafélaginu eru um 800 húsfélög af öllum stærðum og gerðum og eru félagar um 10 þúsund og hefur félagið því góða yfirsýn í þessu efni. Félagið hefur verið í sambandi við Samtök iðnaðarins vegna þessa og er full og einörð samstaða í þessu máli.

Með virðingu,

Fyrir hönd Húseigendafélagsins,

Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður.

Fleiri fréttir

Fagnaðarfundur – Húseigendafélagið 100 ára.

Húseigendafélagið á sér langa tilvist og sögu, sem spannar nú heila öld. Það var stofnað árið 1923 og hefur starfað óslitið síðan. Upphaflega var félagið málsvari leigusala en það hefur

Garðsláttur. Að vera eða ekki vera grasasni.

Ein af plágum sumars og nábýlis eru garðsláttumenn sem ekki mega grænt strá sjá án þess  að ráðast til atlögu við það  með stórvirkum gereyðingartólum. Sláttufíkn eða ofvirkni er talsvert