Ákvarðanataka og vægi atkvæða

Það er meginregla að húsfundur geti tekið ákvarðanir svo bindandi sé án tillits til fundarsóknar sé hann löglega boðaður og haldinn.  Undantekningar eru frá þessari meginreglu í fjöleignahúsalögunum nr. 26/1994.

Lesa Meira

Þýðing hlutfallstalna.

Hverri séreign í fjöleignarhúsi tilheyrir hlutdeild í sameign eftir ákveðinni hlutfallstölu, hafi hún verið ákveðin. Að öðrum kosti eru allir séreignarhlutar jafnréttháir og bera jafnar skyldur. Ákvörðun hlutfallstölu er þannig ekki skyldubundin.
Eignarhlutar eru langt frá því að vera alltaf eins og því er mikilvægt að hlutfallstala sé ákvörðuð svo skipting réttinda og skyldna sé eðlileg og rétt. Séreignarhlutum fylgja eftir hlutfallstölum réttindi og skyldur til að taka þátt í húsfélagi og hefur hún mikla þýðingu varðandi innbyrðis samskipti eigenda, réttindi þeirra og skyldur.
Hafi hlutfallstala verið ákveðin skal koma fram í eignaskiptayfirlýsingu hver sé hlutfallstala (hlutfallstölur) hvers séreignarhluta. Hlutfallstölur getur einnig verið unnt að ráða af öðrum heimildum, t.d. skiptasamningi eða afsali.

Lesa Meira

Aðalfundir húsfélaga. Húsfundir. Undirbúningur. Framkvæmd. Fundarstjórn.

Aðalfundir steðja að.

Nú er brostinn á tími aðalfunda í húsfélögum fjöleignarhúsa sem halda ber fyrir lok apríl. Á aðalfundum er vélað um mikla hagsmuni eigenda og húsfélaga. Gjarnan eru teknar ákvarðanir um þýðingarmikil mál og dýrar framkvæmdir sem hafa í för með sér miklar skuldbindingar og fjárútlát.  Það er forsenda fyrir lögmæti ákvörðunar um framkvæmdir og greiðsluskyldu eigenda að hún hafi verið tekin á fundi sem er löglega boðaður og haldinn.

Húsfundaþjónusta  tryggir lögmæta og árangursríka fundi.

Mörg  dæmi eru um húsfélög  sem hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna mistaka og rangra vinnubragða við undirbúning og framkvæmd húsfunda. Ábyrg húsfélög taka enga áhættu í þessu efni og leita í vaxandi mæli til Húseigendafélagsins eftir aðstoð við að undirbúa, boða og halda húsfundi (ráðgjöf, fundarboð, tillögur, fundarstjórn, fundargerð).  Með því má skapa öryggi og traust innan húsfélagsins og gagnvart viðsemjendum þess og fyrirbyggja deilur og fjártjón.  Liggur í augum uppi að húsfundir sem eru vel undirbúnir og stýrt af kunnáttu og þekkingu eru málefnalegri, markvissari og árangursríkari en ella. Nálgast má nánari upplýsingar um verð og eðli þjónustunnar hér

Lesa Meira

Gleðilega hátíð

Ágætu félagsmenn.

Við þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári og óskum ykkur gleðilegra jóla.  Athugið að skrifstofa Húseigendafélagsins verður lokuð frá 17. desember 2019 til 3. janúar 2020.

Lesa Meira

Ályktun til sveitarfélaganna um að halda hækkun fasteignagjalda undir 2,5%

Sveitarfélögin haldi hækkun fasteignagjalda undir 2,5%

Félag atvinnurekenda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara hafa samþykkt eftirfarandi ályktun: 

„Félag atvinnurekenda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara ítreka áskorun sína frá 25. október til sveitarfélaganna að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaganna stendur nú sem hæst og hafa 12 stærstu sveitarfélög landsins, þar sem tæplega 82% landsmanna búa, kynnt frumvörp til fjárhagsáætlana fyrir árið 2020. Af þessum tólf sveitarfélögum lækka sjö álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði og sex lækka skatthlutfallið á atvinnuhúsnæði, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu

 

Samtökin fagna því að sum sveitarfélög lækka álagningarprósentur, en vekja jafnframt athygli á því að fæst lækka þau álagninguna nógu mikið til að tekjur þeirra af fasteignagjöldum hækki ekki um meira en 2,5%. Akranes, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar eru einu sveitarfélögin sem falla í þann flokk með umtalsverðum lækkunum á skatthlutfallinu.

FA, Húseigendafélagið og LEB taka undir málflutning Alþýðusambands Íslands, sem hefur minnt sveitarfélögin á yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gefin var til að greiða fyrir kjarasamningum á almennum vinnumarkaði síðastliðið vor. Í yfirlýsingunni beindi sambandið þeim tilmælum til sveitarfélaganna að gjöld á þeirra vegum hækki ekki umfram 2,5% á árinu 2020.

Geta ekki hlaupist undan ábyrgð á verðstöðugleika
Samtökin þrenn eru sammála um að sveitarfélögin geti ekki hlaupist undan ábyrgð á því að viðhalda verðstöðugleika í landinu og varðveita þann árangur sem náðist í kjarasamningunum. Hækkun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði vegna hærra fasteignamats kemur beint niður á öllum almenningi í landinu, ýmist með því að fólk þarf að greiða hærri gjöld af eignum sínum eða hærri leigu fyrir leiguhúsnæði. Hækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði knýr fyrirtækin til að hækka verð á vörum og þjónustu, sem einnig bitnar á öllum almenningi.

FA, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara skora á sveitarfélögin að gera það sem gera þarf áður en fjárhagsáætlanir eru endanlega samþykktar til að tryggja að fasteignagjöld hækki ekki um meira en 2,5%.“

Lesa Meira

Fasteignaskattar, ályktun fundar vegna hækkana

 

ERU FASTEIGNIR FÉÞÚFA?

Sameiginleg ályktun Húseigendafélagsins, Landssambands eldri borgara og Félags atvinnurekenda, kynnt á almennum fundi á Grand Hóteli Reykjavík, 25. október 2019.

Húseigendafélagið, Félag atvinnurekenda og Landssamband eldri borgara, lýsa yfir megnri óánægju yfir miklum yfirvofandi og þegar orðnum álögum á fasteignir í formi fasteignaskatts, fasteignagjalda og annarra gjalda, sem lögð eru á fasteignaeigendur á grundvelli fasteignamats. Stjórnvöld þurfa að grípa til tafarlausra aðgerða til að stemma stigu við sjálfvirkum hækkunum á slíkum gjöldum og leiti annarra, sanngjarnari og hóflegri leiða og aðferða en fasteignamats til grundvallar skattheimtu og álagningar gjalda. Slíkar álögur á fasteignaeigendur hafa farið sífellt og mikið hækkandi undanfarin ár og verulegar hækkarnir eru í pípunum og fyrirsjánlegar á ári komandi. Staðreyndir og tölur tala sínu máli og staðfesta það óyggjandi.

Húseigendur þurfa að leggja sitt til samfélagsins eins og aðrir. En álögurnar verða að byggjast á sanngirni og réttlæti og á gegnsæjum og skynsamlegum sjónarmiðum, grunni og reglum. Álagningin hefur undanfarin ár vaxið stjórnlítið samanborið við verðlag og laun og í hrópandi ósamræmi við afkomu og hag eigenda, rekstur heimila og atvinnufyrirtækja. Hækkanir hafa verið langt umfram það sem eðlilegt er og er þá sama hvert viðmiðið er.

Hömlulitlar hækkanir á álögum rýra hag eigenda bæði beint og óbeint. Ráðstöfunartekjur lækka og útgjöld hækka vegna afleiddra verðlagshækkana. Húsaleiga jafnt atvinnuhúsnæðis og íbúða hækkar í kjölfarið. Hækkanir af þessu tagi ógna verðlagsstöðugleika. Sveitarfélög, sem vísa á fasteignamatið og þykjast enga ábyrgð bera sjálf á hækkunum fasteignagjalda, vísa þannig frá sér ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika.

Útreikningur fasteignamats er ógegnsær og uppfyllir ekki þá einföldu kröfu að skattgreiðandinn skilji hvernig skatturinn er reiknaður út.  Fasteignamat er aðallega gjaldstofn fyrir álögur, en er að öðru leyti til lítils gagns. Það kostar mikla peninga og mannafla að halda því úti. Auðvelt væri að nota annan gjaldstofn, til dæmis brunabótamat, fermetrafjölda eða aðra viðmiðun sem helst í hömlu en dregur ekki á eftir sér sjálfkrafa röð hækkana.

Samtökin skora eindregið á sveitarfélög að lækka strax álagningarprósentu fasteignaskatts á næsta ári. Þeim er það í lófa lagið í tengslum við fjárhagsáætlanir og nægur tími er til stefnu. Vilji og skilningur er allt sem þarf. Í framhaldi af því þarf að kafa dýpra og breyta kerfinu þannig að gjaldtakan sé og verði eðlileg og hækki ekki von úr viti og villt og galið eins og hún hefur gert undanfarin ár og mun gera áfram, verði ekki í rétta tauma gripið.

Lesa Meira

Tómlæti í fasteignaviðskiptum

Grein Hafsteins Viðars Hafsteinssonar, lögfræðings hjá Íbúðalánasjóði, í Morgunblaðinu 30. október 2019.

 

Það er gömul saga og ný að stærstu viðskipti flestra á lífsleiðinni felast í því að fjárfesta í þaki yfir höfuðið. Það segir sig því sjálft að fólk á talsvert undir því að viðskipti með fasteignir gangi vel fyrir sig. Þannig skiptir það seljanda mestu máli að greiðslur berist í samræmi við kaupsamning, en fyrir kaupanda er mikilvægast að hann fái fasteignina afhenta á réttum tíma og að ástand eignar sé í samræmi við þær upplýsingar sem seljandi hefur veitt og sjá má við skoðun. Á aðilum hvíla jafnframt gagnkvæmar trúnaðarskyldur þannig að aðilar verði að taka eðlilegt tillit til hagsmuna gagnaðilans og koma þannig í veg fyrir óþarfa tjón ef hægt er. 

Lesa Meira

Skatturinn ógegnsæi og endalausi

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 30. október 2019.

Há fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði skekkja samkeppnisstöðu íslenzks viðskiptalífs. Fasteignaskattar sem hlutfall af landsframleiðslu eru hæstir á Íslandi á öllum Norðurlöndum eða um 2%, tvöfalt hærri en í háskattalandinu Svíþjóð þar sem þeir eru um 1%. Þetta var á meðal þess sem fram kom á fundi Félags atvinnurekenda, Húseigendafélagsins og Landssambands eldri borgara um fasteignagjöld í síðustu viku.

Lesa Meira

Morgunverðarfundur 25. október: Eru fasteignir féþúfa?

Félag atvinnurekenda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara efna til morgunverðarfundar á Grand Hóteli Reykjavík föstudaginn 25. október kl. 8-10, undir yfirskriftinni „Eru fasteignir féþúfa?“ Umræðuefnið er álagning fasteignagjalda á einstaklinga og fyrirtæki og hvernig þessi skattheimta hefur á undanförnum árum vaxið langt umfram allar eðlilegar viðmiðanir. Sífellt þyngri skattbyrði hefur áhrif á félagsmenn í öllum þessum samtökum.

Lesa Meira

Húsaleigusamningar: Gerð þeirra og atriði til að hafa í huga

Allmargar fyrirspurnir hafa borist frá leigusölum um það hvernig standa beri að útleigu húsnæðis án þess að verða fyrir skakkaföllum. Það sem einkennir húsaleigusamninga er misræmið á milli framlaga og áhættu aðilanna. Leigusalinn lætur leigjanda í té verðmæti upp á tugi milljóna en fær á móti  loforð um tiltölulega lágar greiðslur m.v.t. verðmæti eignarinnar. Áhætta leigusalans er því mjög miklu meiri en leigjandans.  Miðað við það sýna leigusalar oft ótrúlega mikið andvaraleysi við val á leigjendum og gerð leigusamninga. Þeir vanrækja stundum að gera skriflega samninga og ganga hvorki eftir meðmælum né tryggingum og afhenda bláeygir bláókunnugu fólki lykla að verðmætri eign. Fallið ekki fyrir  fagurgala. ,,Eins og hann kom nú vel fyrir“ er algengt viðkvæði. Allir sýna sparihliðina í upphafi. Það er auðvelt að tala stórt og lofa miklu ef ekki er ætlunin að standa við neitt.

Lesa Meira

Ófaglærðir menn við framkvæmdir í fjöleignarhúsum

Nú er mikil framkvæmdartíð og húsfélög dugleg að ráðast í nauðsynlegt viðhald og aðrar framkvæmdir. Það getur reynst erfitt að ráða til sín iðnaðarmenn til að sinna hinum ýmsu störfum og oft á tíðum afar kostnaðarsamt. Margsinnis bregða húsfélög á það ráð að ráða til sín ófaglærða menn í verkin sem oftar en ekki búa sjálfir í húsinu eða eru eigendur þess.

Margar spurningar í tengslum við þetta álitaefni hafa komið inn á borð Húseigendafélagsins og sérstaklega sem lúta að því hvort að allir eigendur hússins þurfa að una ákvörðun húsfundar um að ráðinn sé ófaglærður aðili til framkvæmda á húsinu, gegn vilja einstakra eiganda.

Lesa Meira

Félagið og kaupendur ekki saman í óvissuferð

„Þetta er ekki sameiginleg óvissuferð þar sem allir verði að taka ágjöfina.“ Þetta segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins. Fullyrðingar stjórnar Félags eldri borgara í Reykjavík um að kaup félagsmanna á íbúðum sem félagið reisti í Árskógum í Breiðholti geti ekki talist hefðbundin fasteignaviðskipti eiga enga stoð í lögum. 

Lesa Meira

Erindi um rafbíla og fjöleignarhús

Flutt af Sigurði Helga Guðjónssyni formanni Húseigendafélagsins á fræðslufundi á vegum Verkís þann 29. maí 2019. 

Lesa Meira

Erindi um húsaleigulögin

Flutt af Sigurði Helga Guðjónssyni formanni Húseigendafélagsins á fræðslufundi á vegum Verkís þann 29. maí 2019. 

Lesa Meira

Aðalfundur Húseigendafélagsins 2019 - framboð til stjórnar

Framboð til stjórnar á aðalfundi Húseigendafélagins 9. maí 2019.

Úr aðalstjórn ganga:

Sigurður Helgi Guðjónsson formaður, Þórir Sveinsson og Magnús S. Sædal.

 

Úr varastjórn ganga:

Gestur Ó. Magnússon (fyrsti varamaður).

 Sigurlaug H. Pétursdóttir (annar varamaður).

 Svava Friðgeirsdóttir (þriðji varamaður).

 

Guðfinna J. Guðmundsdóttir og Þorsteinn Þorsteinsson sitja áfram í aðalstjórn, enda kjörin til 2ja ára á aðalfundi 2018.

 

Kosið verður  um formann, tvo meðstjórnarmenn og þrjá varamenn.

Tillaga stjórnar um Frambjóðendur:

 

Til formennsku í eitt ár:    Sigurður Helgi Guðjónsson.

 

Í  aðalstjórn til 2ja ára:     Þórir Sveinsson og Magnús S. Sædal.

                                       .

 

Í  varastjórn til eins árs:   Gestur Magnússon (1. varamaður)

                                            Þórhildur Katrín Stefánsdóttir (2. varamaður).

                                            Sigurlaug H. Pétursdóttir  (3. varamaður).

 

Ofangreind framboð voru tilkynnt og kunngerð skrifstofu Húseigendafélagsins föstudaginn 3. maí 2019 og er það staðfest.

 

Samkvæmt lokamálsgrein 9. gr. samþykkta félagsins er lágmarks fyrirvari eða frestur tilkynninga um framboð til stjórnar 4 virkir dagar fyrir aðalfund.

 

Þar sem fleiri framboð hafa ekki borist og ofangreindur frestur er liðinn verður ekki kosið á fundinum og teljast ofangreindir frambjóðendur því og þá sjálfkjörnir.               

 

 

Reykjavík, mánudaginn 6. maí 2019,

 

 

________________________________

Rannveig Fannberg, skrifstofustjóri.

Lesa Meira

Gerð leigusamninga hjá Húseigendafélaginu

Húseigendafélagið hefur í 96 ár gætt hagsmuna leigusala hér á landi og stuðlað að auknu öryggi og heilbrigðum viðskiptum á leigumarkaði og barist fyrir réttarbótum á þessu sviði. Lögfræðingar félagsins eru sérfróðir í húsaleigumálum og  starfsmenn þess búa yfir mikilli þekkingu og reynslu. Félagið gerir leigusamninga og veitir ráð og upplýsingar og kannar skilvísi leigjenda. Þá aðstoðar félagið leigusala þegar vanskil og aðrar vanefndir verða. Þessi þjónusta er eftirsótt af  þeim sem vilja hafa leigumál á hreinu. 

Það sem einkennir húsaleigusamninga er misræmið á milli framlaga og áhættu aðilanna. Leigusalinn lætur leigjanda í té verðmæti upp á tugi milljóna en fær á móti  loforð um tiltölulega lágar greiðslur m.v. verðmæti eignarinnar. Áhætta leigusalans er því mjög miklu meiri en leigjandans. Miðað við það sýna leigusalar oft ótrúlega mikið andvaraleysi við val á leigjendum og gerð leigusamninga. Þeir vanrækja stundum að gera skriflega samninga og ganga hvorki eftir meðmælum né tryggingum og afhenda bláeygir bláókunnugu fólki lykla að verðmætri eign. Fallið ekki fyrir  fagurgala. "Eins og hann kom nú vel fyrir" er algengt viðkvæði. Allir sýna sparihliðina í upphafi. Það er hægurinn að tala stórt og lofa miklu ef ekki er ætlunin að standa við neitt.

Lesa Meira

Húsfélög og Félagsgjald

Nú er hafin innheimta félagsgjalda vegna ársins 2019.

Þeir einstaklingar og húsfélög sem hafa netfang skráð í félagaskrá fá reikning fyrir félagsgjaldi sendan á viðkomandi netfang.

Þeir sem að ekki hafa fengið reikning í tölvupósti geta sent ósk um það á netfangið rannveig@huso.is

Lesa Meira

Aðalfundir húsfélaga

Nú stendur yfir tími aðalfunda í húsfélögum sem halda ber einu sinni á ári fyrir lok apríl. Þar eru teknar ákvarðanir um hagsmuni og þýðingarmikil mál sem hafa í för með sér miklar skuldbindingar og fjárútlát. 

Það er forsenda fyrir lögmæti ákvörðunar og greiðsluskyldu eigenda að hún hafi verið tekin á fundi sem er löglega boðaður og haldinn. Húsfundur getur yfirleitt afgreitt mál með bindandi hætti án tillits til þess hversu margir sækja fund og yfirleitt dugir einfaldur meirihluti mættra fundarmanna til ákvarðana. Húsfundur hefur mikið vald og getur tekið mjög afdrifaríkar og íþyngjandi ákvarðanir sem binda eigendur og þess vegna eru í lögum gerðar ríkar kröfur til húsfunda.

Lesa Meira

Lagabætur um heimagistingu og rafbíla í augnsýni!

Lesa Meira

Fjöleignarhúsalög og rafbílar.

Frá því í september í fyrra hefur Húseigendafélagið ásamt fleirum, rembst við að vekja athygli félagsmálráðherra og ráðuneytis hans á vandamálum varðandi hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum og brýnni nauðsyn á lagabreytingum í því efni, þ.e. á lögum um fjöleignarhús, varðandi bílastæði o.fl.

 

Hússeigendafélagið er 95 ára gamalt og rótgróið. Félagsmenn eru nálægt 10 þúsundi og þar af eru um 800 húsfélög í fjöleignarhúsum. Félagið hefur í áranna rás beitt sér fyrir réttarbótum varðandi fasteignir og náð verulegum árangri í því efni. Félagið hefur um áratuga skeið átt í miklum og góðum samskiptum við ráðherra og ráðuneyti félagsmála og hefur þekking og reynsla félagsins haft verulegt vægi og leitt til margra réttarbóta. En nú virðist öldin önnur.

 

Húseigendafélagið hefur leitt þetta mál með stuðningi helstu hagsmunaaðila og sérfræðinga á þessu sviði. Má þar nefna Félag ísl. Bifreiðaeigenda, Félag fasteignasala, Bílgreinasambandið og Öryrkjabandalagið. Einnig hefur Sambandi ísl. Sveitarfélaga stutt málið.

 

Vandamál hafa orðið og munu hrannast enn frekar upp í fjöleignarhúsum ef ekki verður brugðist við fljótlega með lagabreytingu sem opnar fyrir rafbíla í slíkum húsum. Þar er og  verður flöskuháls sem getur tafið boðaða rafbílavæðingu.

 

Þetta er mjög aðkallandi, brýnt mál sem þegar er orðið bagalegt og valdið hefur deilum og óróa í fjöleignarhúsum. Ástandið á eftir að verða mjög slæmt og ill viðráðanlegt þegar rafbílavæðingin færist í aukana ef ekkert verður að gert.  

 

Alls kyns reddingar og bráðalausnir hafa sést, leiðslur út um glugga, sem og illdeilur og tortryggni, menn berjast með köplum, klippa á leiðslur og taka úr sambandi hver hjá öðrum vegna meints rafmagnsstuldar o.fl. o.fl. Skeggöld og skálmöld vegna þessa virðist  í uppsiglingu, verði ekkert að gert.

 

Þetta er oftar og oftar að koma upp í viðskiptum um íbúðir. Það er orðið ákvörðunarástæða margra kaupenda að tenging og hleðsla fyrir rafbíla sé fyrir hendi eða möguleg. Þá hafa möguleikar í því efni áhrif á hvort fólk kaupir sér rafbíla eða annars konar bíla. Það er ekki viðunandi að svona atriði séu forsenda í íbúðar-og bílakaupum. Það hamlar þróuninni og skekkir allt.

 

Með breytingu á byggingarreglugerð er séð við þessu í nýbyggingum en í eldri húsum er þetta þegar orðið vandamál og mun vaxa ört og verða illa viðráðanlegt ef ekkert verður að gert.
 

Ég skrifaði lagabálkinn um fjöleignarhús á sínum tíma og lýsti mig reiðubúinn að taka að skoða þetta, safna upplýsingum og gögnum og semja drög að frumvarpi, eins og ég hef gert 3 eða 4 sinnum áður þegar brýn þörf hefur kallað á. Ég bauðst til að gera það án þóknunar vegna þess hve mikið er í húfi og málið brýnt fyrir eigendur i fjöleignarhúsum.

 

Ég ræddi  þetta við aðra helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði og eru þeir voru á einu máli um að best og nærtækast væri að fela mér þetta verk. Þetta eru m.a. núverandi og fyrrverandi formenn kærunefnda á þessu sviði og fræðimenn, lagakennarar og dómarar.

 

Frá því í september í fyrra hef ég rembst við að ná eyrum og athygli ráðherra og ráðuneytisstarfsmanna á þessu máli. Hef ég lengst af talað fyrir daufum eyrum og erindum mínum ekki verið svarað.

 

Loks í byrjun mars, eftir langa mæðu, lánaðist  að fá áheyrn félagsmálaráðherra. Mætti ég á fund hans ásamt framkvæmdastjóra Félags fasteignasala.

 

Fundurinn  var góður og gagnlegur og upplýsandi en skilaði því miður litlu eða engu.  

 

Í vor var sagt að vinna við frumvarp hæfist strax, starfshópur yrði skipaður og frumvarp lagt fram í haust. Það hefur ekki gerst og hefur heyrst ávinningur um að nú sé horft til vorþingsins en ekkert annað og meira virðist hafa verið gert.

 

Þannig stendur málið núna eftir 14 mánaða streð og alltaf syrtir í álinn.

 

En fyrst það tókst með kossi að vekja Þyrnirósu eftir 100 ára svefn stendur von til að vakning verði í þessu efni og verkin verði látin tala en ekki verði áfram látið reka á reiðanum og sitja við orðin tóm.

 

Við höfum tröllatrúa á félagsmálaráðherra og vitum að hann er öflugur og vill gott gera í þeim málum sem undir hann heyra. Það er hins vegar spurning hvað segja má um þá starfsmenn ráðuneytis hans sem hafa þessi mál á sinni könnu. Þeir virðast ekki vera mjög vakandi og áhugasamir og seinir til svara og verka.

 

Minnispunktar SHG

13. nóvember 2018.

 

Lesa Meira