Alþingi samþykkti á nýliðnu vori breytingar á lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, sem hafa það að markmiði að opna fyrir hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum og stuðla með því að rafbílavæðingu í samræmi við stefnu stjórnvalda í samgöngu- og loftslagsmálum. Húseigendafélagið hefur barist fyrir lagasetningu sem þessari í fjögur ár enda þörfin mikil. Hingað til hafa íbúar fjölbýlishúsa mætt stórum hindrunum í tengslum við rafbílavæðingu landsins sem oft hefur leitt til þess að þeir eiga ekki kost á að fá sér rafbíl eða fengið sér rafbíl og leyst hleðslumálin með misjöfnum leiðum sem oftar en ekki skapa hættu. Með lagasetningu þessari hefur þessu vandamáli verið eytt og rafbílar boðnir velkomnir í fjölbýlishús. Lagasetningin gengur þó töluvert langt og rafbílum er gert hærra undir höfði en annars konar bílum en er það óhjákvæmilegt svo hægt sé að nálgast markmið stjórnvalda um orkuskipti í samgöngumálum.
Samkvæmt meginreglum fjöleignarhúsalaga þarf almennt samþykki meðeiganda á löglega boðuðum húsfundi við hvers konar fjárútlát húsfélagsins en hin nýsamþykktu lög um rafbíla ganga að nokkru leyti gegn þeim reglum. Hér að neðan verður vikið að því hvaða reglur gilda um eignarhald á þeim bílastæðum sem eru algengust við fjöleignarhús og hvaða rétt eigandi hefur til þess að fá uppsettann hleðslubúnað fyrir rafbíl í sínu stæði eða á þeim stæðum sem hann hefur aðgang að.
Séreignarstæði
Ef um ræðir séreignarstæði eiganda í fjöleignarhúsi hefur sá eigandi einn rétt til hagnýtingar og umráða stæðisins. Ef sá eigandi hefur hug á að fá sér rafbíl með möguleika á að hlaða hann í sínu séreignarstæði þá er stjórn húsfélagsins skylt að verða við kröfu eigandans um að gera úttekt á áætlaðri framtíðarþörf fjöleignarhússins. Þá þarf einnig að framkvæma úttekt á þeim búnaði, þar á meðal álagsstýringarbúnaði, og framkvæmdum sem gera má ráð fyrir að nauðsynlegar verði til að mæta þeirri þörf. Ekki þarf samþykki húsfundar fyrir þeirri ráðstöfun. Þegar búið er að greiða þennan veg er eiganda séreignarstæðis frjálst að setja upp rafhleðslustöð við sitt stæði, og þarf hann ekki leyfi húsfélagsins í því skyni. Krafa er þó vitaskuld gerð um að hleðslubúnaður uppfylli þær kröfur sem eru gerðar samkvæmt löggjöf um rafmagnsöryggi, brunavarnir og mannvirki. Kostnaður við uppsetningu rafhleðslustöðvar er greiddur af eiganda séreignarstæðisins, enda hefur hann þá einn rétt til nýtingar stöðvarinnar en kostnaður framangreindrar úttektar er jafnskiptur öllum eigendum hússins.
Óskipt bílastæði
Algengt er að bílastæði séu í óskiptri sameign við fjöleignarhús en þá hafa allir eigendur jafnan rétt til umgengni og hagnýtingar að stæðunum. Engin ein íbúð á því „sitt“ stæði. Í framkvæmd hefur þurft samþykki allra eigenda til breytingar á slíkri hagnýtingu, til dæmis ef skipta á upp stæðunum eða merkja þau hverri og einni íbúð. Áður en rafbílalögin komu til sögunnar þurfti einnig samþykki allra ef það ætti að setja upp rafhleðslustöð sem einungis væri til hagnýtingar fyrir þá sem ættu rafbíl.
Með nýju lögunum getur eigandi nú óskað eftir því að hleðslubúnaði fyrir rafbíla verði komið upp við eða á bílastæði og er stjórn húsfélagsins þá skylt, á sama hátt og fram kom hér að framan um séreignarstæði, að gera úttekt á áætlaðri framtíðarþörf fjöleignarhússins á hleðslubúnaði, þ.m.t. úttekt á búnaði. Kostnaðaráætlun skal unnin sem liður í úttekt og kynnt þeim eigendum sem ber að taka þátt í kostnaði vegna viðkomandi búnaðar eða framkvæmda. Með öðrum orðum geta einstakir eigendur nú skyldað húsfélagið til að leggja út í tiltekinn kostnað án þess að samþykki þurfi til að koma á húsfundi. Stjórn húsfélagsins þarf þannig að ráðast í úttekt og afla upplýsinga um þann búnað sem heppilegur er fyrir húsfélagið og í kjölfarið er boðað til húsfundar þar sem kosið verður um hverskonar búnaður verður settur upp við húsið, en einfaldur meirihluti þarf að samþykkja búnaðinn sem verður fyrir valinu. Ekki er því heimilt að synja um uppsetningu hleðslustöðvar við slíkar aðstæður nema í algjörum undantekningartilfellum. Farið verði yfir þau undantekningatilvik hér:
Ef í ljós kemur eftir úttekt stjórnar í hleðslumálum við húsið að helmingur sameiginlegra bílastæða verði eingöngu til notkunar til hleðslu rafbíla þá þarf samþykki 2/3 eigenda að liggja fyrir. Ef í ljós kemur að hlutfall bílastæða til hleðslu rafbíla fer umfram 2/3 hluta þeirra sameiginlegu bílastæða sem í boði eru þá þarf samþykki allra eigenda að liggja fyrir.
Rétt er að geta þess að húsfélag getur krafist hóflegrar mánaðarlegrar þóknunar frá þeim eigendum sem sannarlega nýta uppsettan rafhleðslubúnað, enda hafi aðrir eigendur tekið þátt í kostnaði vegna hans. Ekki eru gerðar miklar kröfur um samþykki vegna þessa en einungis þarf samþykki ¼ hluta fyrir téðri ráðstöfun, en skal kveða á um slíka þóknun í húsreglum. Þegar meta á hóflega mánaðarlega þóknun er hægt að snúa sér t.d. til verkfræðistofu eða Rafbílasambands Íslands.
Í lögunum er gengið út frá því að þau stæði sem nýtt verði undir rafhleðslustöðvar verði eingöngu hagnýtt af rafbílum en húsfundur getur þó ákveðið að eigendur annarra bíla geti notað þau líka en einfaldur meirihluti íbúa þurfa að ljá því samþykki sitt.
Kostnaður vegna hleðslubúnaðar á óskiptum bílastæðum er sameiginlegur þeirra eigenda sem hafa heimild til afnota og hagnýtingar af hlutaðeigandi búnaði, hvort sem bílastæðið verður áfram nýtt sem almennt bílastæði eða eingöngu til hleðslu rafbíla. Með öðrum orðum er öllum eigendum sem hafa rétt til að nýta bílastæðið gert skylt að greiða sína hlutdeild í uppsetningu á hleðslustöðum, burtséð frá því hvort þeir muni koma til með að nýta sér stæðin eður ei. Er sá kostnaður jafnskiptur á milli eiganda eins og fram kemur í 45. gr. laga um fjöleignarhús.
Styrkveiting vegna uppsetningu hleðslubúnaðar
Reykjavíkurborg, Orkuveitan og Veitur undirrituðu samning í apríl síðastliðinn um uppbyggingu innviða til hleðslu á rafbílum í Reykjavík. Stofnaður var sjóður þar sem úthlutað er styrkjum til húsfélaga við uppsetningu hleðslubúnaðar fyrir rafbíla í fjöleignarhúsum en um er að ræða 40 m.kr. á ári næstu þrjú árin. Styrkurinn er eingögnu veittur til fjöleignarhúsa með fimm íbúðum eða fleiri skv. Þjóskrá Íslands. Hámarksupphæð til hvers húsfélags er 1,5 m.kr. en þó aldrei meira en sem nemur 67% af heildarkostnaði verksins.
Tinna Andrésdóttir, lögfræðingur
Hér má nálgast hádegisfund Verkís þar sem Tinna Andrésdóttir kynnti fyrrgreinda löggjöf.