fbpx

Sjálftaka fasteignasala

Fasteignaverð er mikið rætt á Íslandi en lítið er rætt um sjálftöku fasteignasala í formi söluþóknana. Þrátt fyrir að mikill skortur hafi verið á fasteignamarkaði haldast söluþóknanir enn himinháar og hækka bara með hækkandi fasteignaverði. Raunar er meðal söluþóknun fasteignasala um 2,2% í  einkasölu en 2,7% í almennri sölu samkvæmt gjaldskrá. Við það bætast föst gjöld sem seljendur og kaupendur þurfa að greiða fasteignasalanum, samtals að meðaltali 136.500kr[1][2]. Til að átta okkur á umfangi sjálftökunnar skulum við rýna tölur um markaðinn það sem af er ári:

Hér má sjá að fasteignasalar taka að meðaltali rúmlega eina og hálfa milljón fyrir að selja eign í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu í einkasölu. Fyrstu kaupendur sem leggja út 10% af kaupverði þyrftu að safna sér rúmlega sex milljónum til að kaupa meðal fjölbýlis íbúð í höfuðborginni, en fasteignasalinn hirðir í raun strax einn fjórða af því í eigin vasa! Mánaða eða ára sparnaður fyrir nokkra klukkustunda vinnu fasteignasala. Á landinu í heild er ástandið litlu skárra, það kostar einfaldlega það sama að fá fasteignasala til að selja eina fasteign og það kostar að ráða tvo til fjóra meðallaunamenn í vinnu í heilan mánuð. Hvernig má það vera? Annar mælikvarði er að horfa á hvað fasteignasalar taka á hvern seldan fermetra. Ódýrast er það 10.000kr og upp í vel rúmlega 15.000kr. Því mættu kaupendur hugsa að þeir gætu fengið fasteignina með glænýju gólfefni, mögulega innréttingum, en áfram á sama verði ef þeir þyrftu ekki að greiða fasteignasalanum. Allar þessar upphæðir væru svo umtalsvert hærri ef um almenna sölu en ekki einkasölu væri að ræða.

En segjum sem svo að fasteignasalar gefi seljendum afslátt af uppgefnum söluþóknunum. Til þess að rýna það skulum við skoða eftirfarandi næmigreiningu.

Efri töflurnar sýna greidda söluþóknun án fastra gjalda við mismunandi stig gjaldheimtu. Þannig má sjá að við 1,24% gjaldtöku, sem er sennilega það lægsta sem fasteignasalar hafa nefnt í þessari umræðu, er söluþóknun fyrir sölu á meðal fjölbýli um 800.000kr en 1.400.000kr fyrir sölu á sérbýli. Við þetta bætist svo að sjálfsögðu fasta gjaldið sem seljendur og kaupendur borga, 136.500kr, en það er rukkað sem umsýslugjald og skjalaöflun. Neðri töflurnar umreikna svo söluþóknanirnar yfir í tímagjald m.v. mismikla vinnu við hverja sölu. Þannig er tíminn seldur á tæplega 20.000kr í allra versta falli fyrir fasteignasala, þar sem söluþóknun er í lágmarki, heil vinnuvika fer í hverja sölu og um fjölbýli er að ræða. Það tilfelli er þó talsvert langt fyrir ofan þær vinnustundir sem jafnvel svartsýnustu fasteignasalar hafa nefnt, sem er um þrjátíu vinnustundir á meðal sölu auk bakvinnslu. Svo ef 136.500kr dekka ekki bakvinnsluna á einni sölu þá endurspeglar þetta tímagjald að fasteignasalinn aðstoði sjálfur í bakvinnslunni um tíu klukkustundir að auki. Hins vegar ef stök sala tekur styttri tíma en heila vinnuviku, sem allar líkur eru á, og/eða söluþóknun nálgast auglýsta gjaldskrá þá má sjá að tímagjaldið hækkar mjög hratt.

Af framgreindu þykir mér augljóst að það er alltaf rukkað háar fjárhæðir í söluþóknanir og að tímagjald fyrir söluþjónustu fasteignasala er á milli þess að vera hátt og upp í að vera svimandi hátt. Það er einfaldlega þannig að stór hluti útborgunar fyrstu kaupenda er að fara í sölu þóknun fasteignasala og útborguð mánaðarlaun ýmissa forstjóra myndu rétt ná að dekka greiðslur til fasteignasalans vegna sölu á sérbýli. Margt fleira má segja um þessi mál, en ég læt nægja í bili að segja að mér þykir þessi sjálftaka óhófleg.

Haukur V. Alfreðsson

 

[1] Almennt eru söluþóknanir gefnar upp án VSK og þá eru meðaltölin um 1,75%, 2,2% og 110.000kr. Fyrir almenna umræðu liggur þó beinna við að nota upphæðir með VSK þar sem almenningur greiðir það verð og lögum samkvæmt skal verð fyrir vörur og þjónustu innihalda VSK og önnur opinber gjöld.
[2] Heimild: Allt fasteignasala, Ás fasteignasala, Borg, Consensa, Eignamiðlun, Eignaver fasteignasala, Fasteignasala Sævars Þórs, Gimli, Heimili, Landmark, Lind fasteignasala, Miklaborg fasteignasala, Nýtt heimili og RE/MAX.

Fleiri fréttir

Sumaropnun Húseigendafélagsins

Vegna sumarleyfa starfsmanna er hurðin lokuð hjá okkur til 6. ágúst nk. Hægt að er ná í starfsmann á okkar vegum í síma 588-9567, einnig er hægt að senda póst