Skýrsla stjórnar Húseigendafélagsins
Flutt á aðalfundi félagsins 31. maí 2023.
__________________
Kæru fundarmenn!
Ég mun nú greina frá almennri starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi, en síðan mun Þórir Sveinsson, gjaldkeri félagsins, gera grein fyrir afkomu og fjárhag þess árið 2022 og stöðunni núna.
Á síðasta starfsári var starfsemi Húseigendafélagsins öflug og árangursrík, bæði í hagsmunabaráttunni og þjónustunni við félagsmennina.
Starfsemi félagsins er í meginatriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi almenn hagsmunagæsla og upplýsingamiðlun og í öðru lagi þjónusta við félagsmenn, þ.e. lögfræðiþjónusta, húsfundaþjónusta og leiguþjónusta
Almenna hagsmunabaráttan hefur í gegn um tíðina einkum verið fólgin í að stuðla að réttarbótum á þeim réttarsviðum sem snerta fasteignir og hamla gegn óhóflegum opinberum álögum á fasteignir. Hefur félaginu orðið verulega ágengt í þeim efnum
Félagið nýtur álits og trausts og leita fjölmiðlar og stjórnvöld líka, oft til þess þegar upp koma mál sem snerta húseignir og eigendur þeirra. Það er þáttur í almennu hagsmunagæslunni og fræðslustarfi félagsins.
Á síðustu misserum höfum við lagst innri íhugun hvað uppbyggingu, starf og rekstur félagsins varðar. Höfum við velt við hverjum steini og gert breytingar sem hafa styrkt og eflt félagið.
Húseigendafélagið er 100 ára gamalt, það var stofnað 23. febrúar 1923 og hefur starfað óslitið allar götur síðan. Ásýnd og yfirbragð félagsins hefur þó breyst og þróast í tímana rás. Upphaflega var það einkum hagsmunafélag leigusala í Reykjavík. Félagið gætir enn sem fyrr hagsmuna leigusala og þá fyrst og fremst þar sem einstaklingar leigja öðrum einstaklingum en í þeim flokk falla ríflega 60% leigusamninga. En nú er það húsfélög í fjöleignarhúsum sem er hryggjarstykkið í félaginu. Mótast starfsemin og áherslur félagsins mikið af því.
Húseigendafélagið mun fyrst og fremst að fagna aldar 100 ára afmælisins með því að gera gott félag enn betra, fjölga félögum og efla starfsemi þess og auka þjónustu þess í hvívetna.
Í haust hyggst félagið efna til veglegs afmælisfundar þar sem fjallað verður um lagaumhverfi fasteigna og eigenda þeirra á sem flestum sjónarhornum, undir yfirskriftinni FÓLK OG FASTEIGNIR.
Lagafrumvörp,
Félagið fær til umsagnar haug lagafrumvarpa frá Alþingi og reglugerðadrög frá stjórnvöldum. Að veita umsagnir er oft flókið og tímafrekt og lítið tóm til þess erli hversdagsins.
Stundum er tekið tillit til ábendinga og sjónarmiða félagsins. Hefur félagið þannig varið hagsmuni húseigenda og stundum náð árangri sem meta má til mikilla peninga.
Þetta mikilvæga starf er yfirleitt unnið í kyrrþey og gleyma menn gjarnan að taka það með í reikninginn þegar þeir spyrja: “Græði ég nokkuð á því að vera í þessu félagi”.
Húseigendafélagið hefur alla tíð talað fyrir sanngirni, hófsemi og góðu jafnvægi í húsaleigumálum og stuðlað að auknu öryggi og heilbrigðum viðskiptum og leigumarkaði og barist fyrir réttarbótum á þessu sviði.
Innan vébanda félagins eru fyrst og fremst einstaklingar sem leigja öðrum einstaklingum. það er langstærsti hópur leigusala og það er hryggjarstykkið á leigumarkaðinum, sem er talið a.m.k 60%. Hlutur hinna einkareknu leigufyrirtækja er aðeins ríflega 15% af leigumarkaðinum eða þar um bil. Þær leikreglur sem um húsaleigu gilda og verða settar mega ekki alfarið miðast við slíkt leigusamband.
Gildandi húsaleigulög frá 1994 voru mikil réttarbót frá vondum lögum frá 1979. Með þeim náðist jafnvægi og samræmi milli réttinda og skyldna aðila og þau virka vel og standa ekki á nokkurn hátt leigumarkaðnum fyrir þrifum. Vandamálið er fyrst og fremst ójafnvægi á húsaleigumarkaðinum vegna skorts á leiguhúsnæði.
Það er grundvallaratriði að ekki sé hlaupið til að breyta lögum nema virkileg þörf sé á því. Það er nauðsynlegt að sýna íhaldssemi í því efni. Það má vel endurskoða húsaleigulögin í heild af yfirvegun og kunnáttu og hafa þau a,m.k. þríþætt, þ.e. í fyrsta lagi einstaklingsviðskipti, í öðru lagi reglur þegar um er að ræða útleigu í atvinnuskyni, þ.e. stór leigufélög og í þriðja lagi um atvinnuhúsnæði,
Ströng og harkaleg lagafyrirmæli fæða ekki af sér fleiri leiguíbúðir, heldur þvert á móti.
Vandræði og uppákomur í leiguviðskiptum eru ekki lögum að kenna fremur en að umferðalögunum verði um bílslysin kennt. Vandamálið er blessað fólkið sem virðir ekki lögin, vegna vanþekkingar og ranghugmynda. Það er algjör firra að réttur leigjenda sé lítill og fyrir borð borinn í gildandi lögum. Tröllasögur um annað eru blekkingar eða á misskilningi byggðar.
Samkvæmt gildandi húsaleigulögunum er aðilum frjálst að semja um leigufjárhæð en leigufjárhæðin á þó að vera sanngjörn. Aðilum er líka heimilt að semja um tímalengd leigunnar. Nú er kallað hástöfum á leiguþak og leigubremsu.
Íslendingar hafa slæma reynslu af höftum og verðlagsstýringu. Framboð og eftirspurn er almennt talin skásti kosturinn. Það eru engin efni til að hneppa húsaleigu í fjötra fremur en aðrar vörur og nauðsynjar, eins og t.d. eldsneyti, orku og matvæli og íbúðarverð og hvaðeina annað, sem ljúft væri að ekki hækkaði.
Það eina sem dugir er að stuðla með ráðum og dáð við kerfisbundna uppbyggingu leiguhúsnæðis. Það er ekki spretthlaup heldur langhlaup.
Fasteignakaup.
Það var Húseigendafélagið sem barðist öðrum fremur fyrir því að sett yrði löggjöf um fasteignakaup, sem tóku gildi 2002. Lagði félagið til að Viðari Má Matthíassyni, fyrrv. hæstaréttardómara, yrði falið að semja drög að frumvarpi um það. Gekk það eftir og ég vann það með honum. Í frumvarpinu voru í sérstökum kafla ítarleg ákvæði um ástandsskýrslur. Í meðferð málsins á Alþingi var kafli þessi illu heilli klipptur út og lýsti viðkomandi nefnd því yfir að strax á næsta þingi yrðu sett með breytingarfrumvarpi ákvæði þ.a.l. Það gekk því miður ekki eftir sem var og er bagalegt, bæði í sjálfu sér og því að reglukerfinu var með því raskað. Svona eins og ef fótur yrði tekinn af manni og hann sendur í spretthlaupi.
Með þingsályktunartillögu frá síðasta vori er vörðuð leið til bóta. Hefur félagið ýtt á eftir því við stjórnvöld.
Það hefði legið beinast og æskilegt og hagfellt að sami háttur yrði hafður á við samningu frumvarps um ástandsskýrslur og Viðari Már og mér verði falið að bæta flíkina og semja frumvarpsdrög. Viðar er fremsti sérfræðingur landsins í fasteignakauparétti og ég hef m.a. verið prófdómari við lagadeild HÍ á því sviði. En því miður gekk það ekki eftir og var skipaður til þess skipaður fjölmennur starfshópur úr ýmsum áttum. Fulltrúi félagsins í þeim starfshópi er Tinna Andrésdóttir, aðallögfræðingur félagsins.
Grennd eða nábýlisréttur eru þær réttarreglur nefndar sem setja eignarráðum manna yfir fasteignum takmörk af tilliti til annarra fasteigna og þeirra er þar búa eða starfa. Reglan byggist á dómafordæmum og fræðikenningum.
Heildarlöggjöf um grennd og nábýli hefur ekki verið sett hér á landi. Hér skorti því sárlega almenna löggjöf um grennd og nábýli sem kveði skýrt á um það hvert athafnafrelsi eigendur hafa og rétt nágranna, þ.e. hvað eigandi má og hvað granni verður að þola.
Flest deilumál og grenndarárekstrar eru tilkomin vegna þess réttarvafa sem leiðir af vöntun á skráðum og skýrum reglum. Mikilvægar réttarreglur um grundvallarverðmæti eiga vitaskuld heima í settum lögum. Þær eiga að vera aðgengilegar, skýrar þannig að eigendur geti átttað sig á réttarstöðu sinni og farið eftir þeim.
Nú er félagið að blása til sóknar og hefja á ný baráttu fyrir almennri grenndarlöggjöf.
En nú að öðru:
Félagið rekur sérhæfða lögfræðiþjónustu sem þjónar hundruðum félagsmanna á hverju ári. Það eru einkum fjöleignarhúsamál, húsleigumál og mál vegna fasteignaviðskipta, sem koma til kasta félagsins.
Sem fyrr var lögfræðiþjónustan fyrirferðamesti þátturinn í starfsemi félagsins.
Lögfræðiþjónustan er hugsuð sem “fyrsta hjálp” til að skilgreina vandamál félagsmanna og meta réttarstöðu þeirra og leiðbeina þeim veginn áfram.
Starfsemi Húseigendafélagsins snýst vissulega mikið um lög; lagatúlkun, upplýsingagjöf og upplýsingamiðlun um lögfræðileg álitaefni. Að því leyti og hvað varðar almennt daglegt amstur, eril og álag á skrifstofuna má segja að lögfræðiþjónusta sé “þungamiðjan” í starfsemi félagsins.
Útseld lögfræðileg þjónusta er hins vegar ekki tekjuleg þungamiðja í starfsemi félagsins. Með vissri nálgun má segja að lögfræðiþjónustan sé niðurgreidd með félagsgjöldunum og að hún sé að stærstum hluta borin upp og kostuð af þeim félagsmönnum sem árgjöldin sín greiða en nýta hana ekki í bráð eða lengd.
Lögfræðiþjónustan er mjög hóflega verðlögð og er hún miklu ódýrari en hjá lögmönnum og ofan í kaupið byggð á sérhæfðri þekkingu og reynslu. Þess vegna er hún mjög eftirsótt. Hún er einskorðuð við félagsmenn og margir ganga í félagið fyrst og fremst til að nýta sér hana. Forsenda þess að félagið geti boðið upp á slíka þjónustu og á svo lágu verði, byggist á tryggð og festu félaga og að þeir tjaldi ekki bara til einnar nætur.
Húsfélögin.
Í félaginu eru nálægt 10 þúsund félagsmenn. Þar af eru 800 húsfélög sem hafa verið vaxtarbroddur félagsins undanfarin ár. Þau eru kjölfestan í félaginu og yfirleitt varanlegri félagsmenn en einstaklingar.
Húsfélög ganga yfirleitt í félagið til frambúðar en einstaklingar eru lausari í taumi og hverfa frekar á braut þegar þjónustu er ekki lengur þörf.
Hins vegar eru húsfélög sem ganga í félagið oft í vanda stödd og í ógöngum og þurfa því mikla þjónustu strax.
Félagsstarfið, áherslurnar og forgangsröðunin, mótast óhjákvæmilega mikið af því hversu mörg húsfélög eru í félaginu og að íbúðareigendur í fjöleignarhúsum eru obbi félagsmanna.
Félagið rekur húsfundaþjónustu fyrir húsfélög sem tryggir löglega fundi og að rétt sé að ákvörðunum staðið.
Þetta er margþætt þjónustu við húsfundi, þ.e. ráðgjöf, undirbúningur funda, gagnaöflun, fundarboðun, tillögugerð, fundarstjórn og ritun fundargerðar.
Þessi þjónusta tryggir að fundir séu lögmætir og að ákvarðanir teknar á þeim verði ekki síðar vefengdar. Það vill oft bregða við að fundir og ákvarðanir klúðrast vegna mistaka og vankunnáttu í að boða og halda fundi.
Þessi þjónusta hefur laðað húsfélög í félagið og verið því til vegsauka og verður það örugglega áfram. .
Markaðsmálin.
Við höfum talið árangursríkara og miklu ódýrara að nýta almenna fjölmiðla, blöð, útvarp og sjónvarp og heimasíðuna okkar til að koma sjónarmiðum og baráttumálum félagsins á framfæri fremur en vasast í mikilli útgáfustarfsemi. Innra starf félagsins hefur doldið setið á hakanum en á síðustu misserum hefur þar orðið mikil bragarbót.
Við höfum haldið nokkur námskeið og fræðslufundi, einkum fyrir húsfélög og stjórnendur þeirra. Við höfum líka haft með okkur trausta aðila í þessu efni. Má nefna Samt. Iðn., Mannvirkjastofnun o.fl. Þar er mikill óplægður akur sem getur skapað góðar tekjur og verið aðdráttarafl og vegsauki fyrir félagið.
Aðal áhyggjuefnið er síharðnandi samkeppni í þjónustu við húsfélög, bæði hvað varðar húsfundi og lögfræðiþjónustu . Margir aðilar hafa haslað sér völl á því sviði, auglýst grimmt og mikið og mörg gylliboðin fram sett. Húseigendafélagið er í sjálfu sér ekki í samkeppni við þessi þjónustufyrirtæki, það leggur áherslu á almenna hagsmunagæslu og lögfræðina en þau bjóða upp á altæka þjónustu. Þau virðist líta hins vegar á félagið sem samkeppnisaðila og agitera gegn því. Segja húsfélögum að þau þurfi ekki að vera í félaginu og hvetja húsfélög til að ganga úr því.
Stjórn húsfélaga hefur þröngar heimildir til að fela utanaðkomandi aðila verkefni sín og skyldur. Dæmi eru um að stjórn hverfi nánast undir huliðshjálm og vísi eigendum sem vilja upplýsingar og skýringar á fyrirtæki út í bæ. Ábyrgð stjórnamanna er rík og þeir geta ekki hlaupið frá henni og skýlt sér þá bak við slíkan þjónustuaðila.
Það getur dregið dilk á eftir sér, t.d. valdið lögleysi ákvarðana og ráðstafana og að greiðsluskylda stofnast ekki. Stjórn eða einstakir stjórnarmenn geta með ráðslagi sínu bakað sér bótaskyldu gagnvart húsfélaginu eða einstökum eigendum. Þetta höfum við predikað og munum gera áfram.
Þjónustufyrirtæki á þessu sviði eru rekin með hagnað að leiðarljósi en ekki af einskærri góðsemi. Það er gott og blessað. Þau þurfa skiljanlega að fá fyrir sinn snúð en þjónusta þeirra er alltaf dýrari en í upphafi virtist.
Oft eru samningar ekki eins hagstæðir og menn töldu í upphafshrifningu. Þegar allt kemur til alls er kostnaðurinn oft meiri en menn óraði fyrir. Þjónustan er svo ofan í kaupið sjaldnast eins góð og mikil og menn töldu og hagurinn minni. Er stjórnum húsfélaga rétt að vera á varðbergi gagnvart gylliboðum á þessu sviði sem öðrum.
Nokkur fyrirtæki hafa haslað sér völl á þessu sviði og virðast sum skárri en önnur eins og gengur. En oft virðist skorta á lagaþekkingu og vönduð og ábyrg vinnubrögð hjá þessum fyrirtækjum sem hefur dregið dilk á eftir sér. Um það vitna dómar og kærunefndarálit.
Þessi fyrirtæki bjóða húsfélögum gull og græna skóga og hafa auglýst gífurlega grimmt og lofað miklu. Þau hafa yfirleitt agiterað stíft á móti okkur og talið húsfélögum trú um að þau séu hólpin í þeirra faðmi og þurfi ekki að vera í Húseigendafélaginu. Það hefur svo valdið því að færri húsfélög hafa gengið í félagið og fleiri hafa sagt sig úr því en ella.
Það eru hákarlar í þessu hafi og stundum virðast gyllboð um inngöngu nánast vera agn til að ná í framhaldinu í viðhaldsverkefni eða lögfræðiverk fyrir tengd eða útvalin verktakafyrirtæki og lögfræðistofur. Þar einatt eru stórar fjárhæðir í húfi og á ferðinni og lag að næla í góða sneið af kökunni svo lítið beri á.
Við höfum haldið okkar striki en ekki haft burði til að mæta auglýsingaherferðum þeirra með sama hætti.
Þessari baráttu er ekki lokið og við verðum að vera á tánum og vel á verði.
Við þurfum að vera grimmari og svara þessari samkeppni með aukinni og bættri þjónustu. Félagið okkar hefur sérstöðu, það er sjálfstætt og engum háð, heiðarlegt og traust og hefur yfirburði í þekkingu og reynslu. Og það er ekki hagnaðar- eða græðgisdrifið eins og þau fyrirtæki sem að okkur sækja.
Það er einboðið að félaginu er nauðsynlegt að ná til húsfélaga í nýjum fjöleignarhúsum og aðstoða við að koma þeim á laggir og stýra fyrsta fundinum a.m.k. Er mikilvægt að ná þeim strax inn í félagið, e.t.v. í gegn um byggingaraðila, fremur en að miða á húsfélög sem eru komií uppnám og vandræði sem tekur oft mikla vinnu og tíma að greiða úr.
Skattamálin eru sígilt viðfangsefni. Skattbyrði húseigenda hefur lengi verið úr hófi og sama gildir um aðrar opinberar álögur á fasteignaeigendur. Þar er mikið verk að vinna.
Stóra vandamálið er fasteignamatið einkum og sér í lagi þegar það hækkar stjórnlaust, villt og galið.
Fasteignamat á að endurspegla staðgreiðsluverð eigna í nóvember ár hvert. Þegar fasteignaverð sviflast upp hefur það í för með sér hækkun á fasteignamati og samsvarandi hækkanir á fasteignasköttum- og gjöldum og líka á margvíslegum öðrum opinberum gjöldum, sem reiknuð eru út frá fasteignamati. Má sem dæmi nefna stimpilgjöld og erfðafjárskatt.
Hóflausar opinberar álögur á fasteignir eru óréttlátar af ýmsum ástæðum:
- Álagningin er óháð tekjum og kemur oft mjög harkalega við eldra fólk.
- Verið er að skattleggja sparnað, sem fólk hefur áður greitt skatta af.
- Gjöldin eru reiknuð af fasteignamatsverði, sem aftur er miðað við staðgreiðsluverð.
Þetta er brúttóskattur en ekki nettóskattur eins og eignaskatturinn illræmdi var þar sem
skuldir voru dregnar frá og skatturinn reiknaður af nettóeigninni..
Vonandi er að stjórnvöld átti sig og geri brátt þær breytingar og leiðréttingar sem eru nauðsynlegar til að ekki fari í meira óefni en orðið er. Staðreyndir og tölur tala sínu máli og staðfesta það óyggjandi. Álögur á fasteignir hafa sífellt farið hækkandi og ríki og sveitarfélög seilast æ dýpra í vasa og buddu fasteignareigenda. Nú er komið nóg og mál að linni. Auðvitað verða húseigendur að leggja sitt til samfélagsins eins og allir aðrir. En álögurnar verða að byggjast á sanngirni og réttlæti og á gengsæjum og skynsömum reglum.
Álagningin má ekki vera úr takt við allt og allt og aukast ár frá ári og stjórnlítið samanborið við verðlag og laun og í hrópandi ósamræmi við afkomu og hag eigenda, rekstur heimila og atvinnufyrirtækja. Hækkanir hafa verið langt umfram það sem eðlilegt er og er þá sama hvert viðmiðið er.
Hér er sannarlega pottur brotinn og margt meinið. Aðal skaðvaldurinn og meinið er fasteignamatið sjálft og það reglukerfi sem það byggist á og sá spírall sem það veldur með átómískum hækkunum á öllu sem á því byggist. Þar eru notaðaðar flóknar hókuspósus reglur og útreikningar sem bara útvaldir og tæplega það botna í. Ríki og sveitarfélög breiða þakklát og fagnandi út faðminn og taka við auknum tekjum með gleði og velþóknun.
Fasteignamatið er nánast yfirskilvitlegt fyrirbæri sem enginn vill bera ábyrgð á. En það byggist ekki á heilagri ritningu og er manna verk. Það er sjáfkeyrð maskína, peningavél, sem býr til sífellt meiri tekjur fyrir hið opinbera og hefur ekkert annað gildi og hlutverk en það. Fasteignamat er bara gjaldstofn fyrir álögur. Að öðru leyti er það til lítils gagns. Það kostar mikla peninga og mannafla að halda því úti, sem mætti spara verulega. Það er hægurinn að hafa annars konar gjaldstofn. Vel mætti nota brunabótamatið eða fermetrafjölda og örugglega margt annað, sem helst í hömlu en dregur ekki á eftir sér sjálfkrafa og setur hækkunarflóð í gang.
Hömlutiltlar hækkanir á álögum rýra hag eigenda bæði beint og óbeint. Lækkar ráðstöfunartekjur og hækkar útgjöld vegna afleiddra verðlagshækkanna. Húsleiga hækkar, bæði atvinnuhúsnæðis og íbúða hækkar í kjölfarið.
Þetta er fyrst og fremst kerfisvandi. Tölvan segir Hækka og enginn þykist fá neitt við ráðið. Það þarf að endurskoða og endurstilla maskínuna og kerfið og búa til annað betra á öðrurm grundvelli sem er stabílli, skiljanlegrri og rétlátari.
Húseigendafélagið hefur haft forgöngu um samráð við Samtök eldri borgara og Félag atvinnurekanda um að krefjast kerfisbreytinga. Hafa þessi félög að frumkvæði Húseigendafélagsins átt í viðræðum við Samband ísl. sveitarfélaga og fl., sem lofa góðu. Fremstur þar í flokki er okkar ágæti gjaldkeri og skrifstofustjóri, Þórir Sveinsson, sem hefur yfirburða þekkingu á þessu sviði. Ómetanlegt fyrir félagið að hafa slíkan sérfræðing innan sinna raða.
Fjölgun félaga.
Það er stærsta hagsmunamál félagsins að fjölga félögum. Fleiri félagar eru forsenda fyrir öflugra og árangursríkara starfi og traustari fjárhag félagsins.
Húsfélög eru mjög dýrmætir félagar enda eru þeir tryggari greiðendur og staldra lengur við en einstaklingar almennt.
Sókn okkar verður að beinast að þeim og þá aðallega að húsfélögum í nýjum húsum, eins og ég hef áður drepið á.
Má raunar segja að árangur félagsins hafi verið ótrúlega góður og starfsemi þess öflug þótt félagsmenn séu ekki fleiri en raun ber vitni og félagsgjöldum hafi jafnan verið mjög í hóf stillt og þjónustan seld ódýrt. EN BETUR MÁ EF DUGA SKAL!
Fjárhagur félagsins.
Félagið nýtur engra styrkja og er algjörlega óháð og stendur alfarið á eigin fótum fjárhagslega. Í því liggur mikill styrkur og það er eitt af fjöreggjum félagsins. Það er sífellt að koma í ljós og gerir félagið öflugra og marktækara í stóru sem smáu.
Félagsgjaldið hefur lítið hækkað undanfarin ár og stappar kraftaverki næst að félagið hafi samt sem áður, haldið sínu striki og vaxið.
Félagsgjöldin eru megin tekjustofn félagsins.
Lögfræðiþjónustan er frek á tíma og krafta starfsmanna félagsins. Í raun eru það þeir félagsmenn sem greiða félagsgjöld en nýta sér ekki lögfræðiþjónustuna sem halda henni uppi.
Við höfum leitast við að kryfja lögfræðiþjónustuna til mergjar og endurskilgreina hana og endurskipuleggja til að gera hana skilvirkari og þannig að hún skili félaginu viðunandi tekjum án þess að sliga aðra starfsemi þess.
Hefur það skilað árangri í aukinni skilvirkni. Þannig að það stefnir allt í rétta átt í lögfræðiþjónustunni og horfur eru góðar.
Þórir Sveinsson mun hér á eftir fara nánar yfir fjárhag félagsins og skýra reikninga þess fyrir árin 2021.
Ég þakka hinu frábæra starfsfólki félagsins og stjórnarmönnum, sem og öllum samstarfsaðilum, fyrir gott og ánægjulegt samstarf og ég hlakka til næsta starfsárs með þeim.
Í gegn um tíðina sem spannar heila öld hafa karlmenn einkum skipað framvarðasveit félagsins. Svona háfgerður karlaklúbbur, En nú er að verða breyting þar á eða öllu heldur góðkynja bylting. Konur munu sem sagt eftir þennan fund skipa meirihluta stjórn og varastjórn félagsins.
Býð ég þær frábæru konur Hildi Ýr og Hörpu Hörn, velkomnar í framvarðasveit félagins ég er þess fullviss að þær muni efla félagið og styrkja. Þær eru afar hæfar og búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á þeim réttarsviðum er varða fasteignir og eigendur þeirra. Þeirra er framtíðin og hún er björt.
Að lokum þetta. Félagið er vel kynnt og stendur traustum fótum á gömlum merg og nýtur trausts og virðingar og starfsemi þess er öflug og árangursrík.
Með samhentu átaki okkar og fleiri félögum hefur Húseigendafélagið fulla burði og forsendur til að verða enn öflugra húseigendum þessa lands til hags og heilla.
Ég hef þá lokið við skýrslu stjórnar. Þakka gott hljóð.
Reykjavík, 31. maí 2023,
Sigurður Helgi Guðjónson
formaður.