fbpx

Staða húseigenda vegna jarðskjálfta og yfirvofandi eldgoss við Grindavík

Ófremdarástand hefur ríkt í Grindavík síðustu daga líkt og flestir landsmenn kannast eflaust við. Þann 10. nóvember sl. tók lögreglustjórinn á Suðurnesjum þá ákvörðun, í samráði við Almannavarnir, að rýma Grindavíkurbæ og Almannavarnir hafa samhliða lýst yfir neyðarstigi vegna yfirvofandi eldgoss í bænum. Óneitanlega vakna upp fjölmörg lögfræðileg álitaefni við þessar aðstæður, t.d vátrygginarréttarlegs eðlis og hver sé staða húseigenda í Grindavík?

Brunatrygging er lögboðin trygging og því er eigendum húseigna skylt að tryggja þær gegn eldsvoða hvort sem um er að ræða hús í byggingu eða fullbúið hús. Gildir þetta um allar tegundir húsnæðis, svo sem íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, sumarhús, bílageymslur eða hesthús. Hins vegar bætir brunatrygging ekki tjón vegna eldgosa, jarðskjálfta eða vegna annarra náttúruhamfara. Slík tjón eru bætt af Náttúruhamfaratryggingu Íslands en um er að ræða skyldubundna eignatryggingu. Hefur hún í gegnum tíðina bætt tjón vegna ýmiss konar náttúruhamfara. Stærsti tjónsatburðurinn í sögu hennar er jarðskjálftinn á Suðurlandi 29. maí 2008. Tryggingunni er ætlað að mæta tjóni sem undanskilið er í tryggingum á almennum vátryggingarmarkaði en iðgjöld vegna tryggingarinnar eru almennt innheimt samhliða brunatryggingariðgjöldum og er ekki flokkað eftir áhættu. Þetta víkur frá því sem almennt gildir um vátryggingar. Bótarétturinn fer þannig ekki eftir samningi vátryggjanda og vátryggingartaka, heldur eftir lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands og reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Þrátt fyrir að tryggingin víki frá því sem almennt gildir um vátryggingar, á náttúruhamfaratrygging það sameiginlegt með einkavátryggingum að það er yfirleitt skilyrði réttar til bóta að iðgjald sé greitt.

Þegar vátryggingaratburður hefur orðið er mikilvægt að vátryggður tilkynni það þeim sem hefur selt honum vátrygginguna. Þegar vátryggjandi fær vitneskju um tjón sem ætla má að náttúruhamfaratrygging taki til skal svo fljótt sem unnt er gera ráðstafanir til að fá úr því skorið hvort tjónið verði bætt. Þá hvílir það jafnframt á herðum vátryggjanda að taka afstöðu til þess hvort það þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til björgunar vátryggðra muna, eða til takmörkunar tjóns að öðru leyti. Slíkar ráðstafanir skulu, svo sem kostur er, gerðar í samvinnu við almannavarnir.

Tjónþoli skal almennt nota vátryggingarbætur til að gera við húseign sem hefur orðið fyrir tjóni vegna náttúruhamfara eða til að endurbyggja hana. Ef vátryggingarbætur eru hærri en 15% af vátryggingarfjárhæð húseignarinnar eða ef tjónið hefur áhrif á öryggi húseignarinnar eða hollustuhætti skal Náttúruhamfaratrygging Íslands tryggja að vátryggingarbótum sé réttilega varið áður en þær eru greiddar tjónþola. Náttúruhamfaratryggingu Íslands er heimilt að veita undanþágu frá viðgerðar- og byggingarskyldu að höfðu samráði við sveitarstjórn að uppfylltu því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni. Frádrættinum skal ekki beitt ef endurbygging er ekki heimil af skipulagsástæðum eða öðrum ástæðum sem tjónþoli ræður ekki. Vátryggingarbætur skulu inntar af hendi svo fljótt sem unnt er.

Þá þykir vert að nefna að fleiri stjórnvöld beita sér í því að mæta áföllum vegna náttúruhamfara. Í því sambandi er vert að nefna Bjargráðasjóð sem hefur það hlutverk að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara. Þó er ekki bætt tjón sem nýtur almennrar tryggingarverndar eða hægt er að fá bætt úr náttúruhamfaratryggingu.

Að lokum er rétt að vekja athygli á því að Alþingi samþykkti á dögunum frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Skatturinn, sem skilgreindur er sem forvarnagjald, nemur 0,00008 prósentum og leggst á allt húsnæði í landinu næstu þrjú árin til að standa undir mögulegum framkvæmdum við gerð varnargarða í kringum orkuverið í Svartsengi.

 

 

Húseigendafélagið óskar öllum Grindvíkingum velfarnaðar á þessum erfiðu tímum.

 

15. nóvember 2023.

Jónína Þórdís Karlsdóttir, lögfræðingur og meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands

Fleiri fréttir

Aðalfundur Húseigendafélagsins

  Aðalfundur Húseigendafélagsins 2024 verður haldinn fimmtudaginn 18. apríl nk. í sal Höfuðstöðvarinnar, Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, og hefst hann kl. 16:30. Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.   F.h. stjórnar

Félagsgjöld 2024

Félagsgjöld 2024 Greiðsluseðlar fyrir félagsgjöld 2024 hafa verið gefnir út og sendir í heimabanka félagsmanna. Sjá má upphæðir félagsgjalda á heimasíðunni undir flipanum Þjónusta og gjaldskrár. Til að minnka pappírsnotkun