Þjónusta og gjaldskrá

Á forsíðu heimasíðunnar má slá inn tegund félagsaðildar og eignarhluta og reiknast þá út rétt verð. Sjá nánar um hag félagsaðildiar hér.

Einstaklingar:
Árgjald:                                      kr.   6.800
Skráningargjald:                        kr.   7.000
Samtals við inngöngu:               kr. 13.800
 
Húsfélög:
Árgjald fyrir hvern eignarhluta:        
Félagsgjald, húsfélag; 2-5 eignarhl. kr. 5.900
Félagsgjald, húsfélag; 6-12 eignarhl. kr. 5.500
Félagsgjald, húsfélag; 13-20 eignarhl. kr. 4.900
Félagsgjald, húsfélag; 21-50 eignarhl. kr. 4.400
Félagsgjald, húsfélag; 21-50 eignarhl. kr. 2.900
Skráningargjald fyrir húsfélög með 2-9 eignarhlutum: kr. 12.000
Skráningargjald fyrir húsfélög með 10 eignarhlutum eða fleiri:       kr. 0

Ávalt hefur verið kostað kapps um að halda félagsgjaldinu í hófi. Gjaldtaka fyrir alla þjónustu félagsins er í algjöru lágmarki og hefur það reynst unnt með ráðdeild í rekstri og verulegri fjölgun félaga, einkum húsfélaga. Öll þjónusta við félagsmenn er verulega niðurgreidd og verðið aðeins brot af því sem sambærileg þjónusta kostar hjá öðrum, svo sem lögmönnum og leigumiðlurum. Félagsgjöldin voru endurskoðuð í byrjun ársins 2021 og var ákveðið að breyta félagsgjöldum húsfélaga á þá leið að ársgjaldið verður hagstæðara eftir fjölda eignarhluta í húsi.

  • Almenn ráðgjöf –

Félagsmenn hjá Húseigendafélaginu geta fengið svör við almennum fyrirspurnum í síma 588-9567 og á netfangið postur@huso.is og er það innifalið í félagsgjaldinu.

Almennar fyrirspurnir geta t.d. verið um kostnaðarskiptingar, um boðun húsfundar, gluggar, sameign eða séreign, fyrstu skref varðandi ónæði, dýrahald, nábýlisrétt, framkvæmdir og fjármögnun, lóðir og skyldur og umgengni í fjöleignarhúsum.

Þjónustufulltrúar félagsins kappkosta við að svara þeim fyrirspurnum sem berast en í sumum tilvikum eru fyrirspurnir þess eðlis að þörf sé á að skoða málefnið nánar, það á t.d. við ef um er að ræða langa forsögu, matsatriði, nauðsynlegt að rýna í gögn til að geta svarað með fullnægjandi hætti og/eða þörf sé á bréfaskriftum. Í þeim tilvikum eiga fyrirspurnir í mörgum tilvikum frekar heima inni á borði hjá lögfræðingi félagsins.

  • Lögfræðileg hraðþjónusta fyrir húsfélög –

Stjórn húsfélaga sem eru félagsmenn hjá Húseigendafélaginu býðst nú að hringja í lögfræðing Húseigendafélagsins til að fá svör við spurningum er varða hagsmuni húsfélags. Þjónustan er innifalin í félagsgjaldi húsfélaga.

„Það er létt að gera rétt“ en getur reynst erfiðara að leiðrétta það sem afvega fór. Þjónustan er fyrst og fremst hugsuð sem fyrirbyggjandi lögfræðiþjónusta fyrir húsfélög þar sem hagsmunir margra eru undir. Hér væri t.d. hægt að fá leiðbeiningar um hvernig eigi að gera rétt í upphafi og/eða fá staðfestingu á því sem verið er að gera.

Vinsamlegast skráðu þig inn til að bóka hraðþjónustu. Leitast er við að svara öllum í síðasta lagi næsta virka dag, yfirleitt er hringt fyrir hádegi.

Ef málefni þarfnast frekari skoðunar, bréfaskrifta, gagnarýningar eða þess háttar verður mælt með að pantaður sé almennur viðtalstími hjá lögfræðingi, sjá nánar hér.

  • Lögfræðiþjónusta –

Húseigendafélagið rekur sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn sína á þeim réttarsviðum, sem varða fasteignir og eigendur þeirra. Lögfræðiþjónustan hefur verið þungamiðjan í starfsemi félagsins síðustu áratugi. Fyrir lögfræðiþjónustuna er tekin þóknun samkvæmt tímagjaldi sem er verulega lægra en hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum. Félagsmenn hjá félaginu fá verulega niðurgreidda lögfræðiþjónustu og er félagsgjaldið mjög fljótt að skila sér til baka með því.

Fyrir lögfræðivinnu utan skrifstofu og/eða utan venjulegs vinnutíma reiknast allt að 50% álag á tímagjaldið.
Svör við fyrirspurnum sem berast í tölvupósti eða símleiðis eru almennt gjaldfrjáls. Sé fyrirspurn hins vegar beint til lögfræðings er tekið gjald fyrir svarið.
Ef viðtalstími er bókaður en ekki nýttur, og forföll eru ekki boðuð, áskilur félagið sér rétt til þess að innheimta gjald fyrir tímann.
Yfirleitt er miðað við 1 – 4 klukkustunda vinnu við hvert mál. Séu mál umfangsmeiri og tímafrekari falla þau almennt utan marka lögfræðiþjónustunnar og er þeim þá vísað til starfandi lögmanna enda er félagið ekki lögfræðistofa heldur hagsmunafélag sem veitir félögum sínum niðurgreidda lögfræðiaðstoð að ákveðnu marki.

Nánar um lögfræðiþjónustuna
Lögfræðiþjónustan er mjög eftirsótt og því þarf að setja henni ákveðnar skorður. Hún er aðallega hugsuð sem “fyrsta hjálp”, þ.e. að aðstoða félagsmenn við að skilgreina vandamál sín og átta sig á réttarstöðu sinni og leiðbeina þeim veginn áfram. Ef mál vinda upp á sig og verða viðamikil og tímafrek, þá verður félagið að meginstefnu til að vísa þeim til starfandi lögmanna. Rekstur dómsmála fellur almennt utan ramma lögfræðiþjónustu félagsins. Eftirspurn eftir lögfræðiþjónustunni er mikil og algengt er að tugir nýrra mála berist í viku hverri. Sum erindi eru þess eðlis að hægt er að afgreiða þau í einum viðtalstíma, en flest kalla þau á meiri vinnu, yfirlegu, rannsóknir, gagnaöflun, úrvinnslu, skjalagerð og skriftir, bréfaskriftir, álitsgerðir, fundahöld o.fl. Vinna við einstök mál getur því verið frá hálfri klukkustund eða jafnvel minna og allt að mörgum klukkutímum eftir eðli og umfangi.

Leigumál
Húseigendafélagið býður félagsmönnum sínum upp á þjónustu í húsaleigumálum. Við útleigu er raunin sú að áhætta leigusala er mun meiri en leigutaka enda er endurgjaldið sem leigutaki lætur í té einungis lítið brot af verðmæti eignarinnar. Að fá aðstoð við útleigu dregur úr fjárhagslegri áhættu vegna vanskila og skemmda á leiguhúsnæði. Þjónusta Húseigendafélagsins er mjög hagkvæm leið til að tryggja öryggi við útleigu.

Húseigendafélagið tekur að sér gerð leigusamninga
Lögfræðingar félagsins sjá til þess að leigusamningur leigusala sé þannig úr garði gerður að hann verndi hagsmuni hans þegar á reynir og að tryggingar fyrir leigufjárhæð og/eða skemmda sé fullnægjandi. Kostir þess að lögfræðingar félagsins sjái um gerð löggilts leigusamnings:

Þeir miðla reynslu sinni og gefa upplýsingar um réttindi og skyldur aðila, lagaatriði og ráðstafanir, s.s. tryggingar o.fl.
Þeir leiðbeina leigusölum í rétta átt hvað úttektaraðila á leiguhúsnæði varðar.
Leigusala og leigutaka býðst að skrifa undir leigusamning á skrifstofu Húseigendafélagsins.
Könnun á skilvísi leigjenda verður gerð.
Lögfræðingar Húseigendafélagsins geta einnig komið til aðstoðar ef vandamál koma upp á leigutímanum eða við lok hans, t.d. vanskil á húsaleigu, greiðsluáskorun, riftunaryfirlýsing, uppsagnir o.fl. Athugið að ef leiguvanskil eru, mælum við með að hafa samband fyrr en síðar.

  • Húsfundaþjónusta –

Húseigendafélagið veitir húsfélögum ráðgjöf og aðstoð við húsfundi. Tekin er mjög sanngjörn þóknun fyrir þjónustuna, sem miðast við hóflegt tímagjald. Um er að ræða alhliða húsfundarþjónustu. Húsfélög þurfa að vera í Húseigendafélaginu til að fá þessa þjónustu eða tillaga um félagsaðild sé á dagskrá fundarins. Þjónustan tryggir lögmæta fundi og að rétt sé staðið að töku ákvarðana en á því vill oft verða misbrestur með afdrifaríkum afleiðingum.

Hvað er innifalið í þjónustunni:
Undirbúningsfundur við lögfræðing.
Aðstoð við gerð fundarboðs og fundarboðun.
Lögfræðingur með sérþekkingu annast fundarstjórn.
Lögfræðingur eða laganemi annast fundarritun.
Séð er fyrir fundarhúsnæði enda brýnt að húsnæði sé viðunandi og henti til funda.
Frágangur fundargerðar.

Hvernig virkar ferlið?
Þegar húsfundaþjónustan er pöntuð er byrjað á því að bóka viðkomandi í undirbúningsfund hjá lögfræðingi félagsins á innra svæði heimasíðunnar.
Á undirbúningsfundinum er meðal annars farið yfir hvort um sé að ræða aðalfund eða almennan húsfund, hvaða málefni verða á dagskrá á fundarboði, tillögur útfærðar, almenn lögfræðileg ráðgjöf um málefni fundarins, fundartími og fundarstaður ákveðinn og aðstoð við gagnaöflun og boðun fundarins.
Þegar húsfundarþjónustan er pöntuð af hálfu stjórn húsfélags er æskilegt að ekki fleiri en þrír stjórnarmeðlimir mæti á undirbúningsfundinn.

Gjaldskrá:
Tekin er mjög sanngjörn þóknun fyrir þjónustuna, sem miðast við hóflegt tímagjald. Grunngjald fyrir húsfundaþjónustu Húseigendafélagsins er a.m.k. 85.000 kr. Innifalinn er undirbúningur fundar (undirbúningsfundur og gerð fundarboðs) (verð 28.000 kr.), fundarstjórn lögmanns (verð 35.000 kr.) og fundarritun (verð 22.000 kr.). Framangreint verð er miðað við að húsfélagið sé í Húseigendafélaginu eða samþykki tillögu um inngöngu í félagið á fundinum sjálfum. Húsfélög sem ekki eru félagsmenn og ganga ekki í félagið eftir fundinn greiða allt að tvöfalt verð.

Sundurliðun gjaldskrá húsfundaþjónustu
Undirbúningsfundur félagsmenn 28,000 kr.
Fundarstjóri, félagsmenn 35,000 kr.
Fundarritun, félagsmenn 22,000 kr.
Samtals húsfundaþjónusta, félagsmenn 85,000 kr.
Undirbúningsfundur, utanfélagsmenn 42,000 kr.
Fundarstjórn, utanfélagsmenn 70,000 kr.
Fundarritun, utanfélagsmenn 44,000 kr.
Samtals húsfundaþjónusta, utanfélagsmenn 134,000 kr

Miðað er við að undirbúningsfundur taki ekki lengri tíma en 30 mín og að undirbúningur fundarins í heild taki ekki lengri tíma en 1,5 klukkustund. Ef undirbúningur fundarins tekur lengri tíma áskilur Húseigendafélagið sér rétt til þess að hækka verðið fyrir hann, sbr. gjaldskrá félagsins.
Verð fyrir fundarstjórn og fundarritun miðast við að húsfundurinn sé ekki lengri en tvær klukkustundir og tekur fundarstjórnin mið af því. Takist ekki að ljúka fundinum innan þess tíma er innheimt tímagjald eftir tveggja klukkustunda markið. Á hið sama við um vinnu og skil fundargerðar þegar fundi er lokið. 

Sé húsfundurinn haldinn utan höfuðborgarsvæðisins er tekið gjald fyrir akstur fundarstjóra og ritara á fundinn og til baka. Upplýsingar um fjárhæðir má nálgast á skrifstofu félagsins.

Það er skilyrði af hálfu Húseigendafélagsins að valið sé hentugt húsnæði undir húsfundinn. Almennt kemur ekki til greina að halda húsfundi inn í íbúðum einstakra eigenda. Húseigendafélagið getur haft milligöngu um að útvega heppilega fundaraðstöðu á hagstæðu verði. Sjái fundarboðandi sjálfur um að útvega húsnæði ber hann ábyrgð á því að húsnæði tilbúð til notkunar þegar fundurinn hefst. Gæta þarf að því að sæti séu nægilega mörg, að fundarstjóri og fundarritari hafi borð, stóla og aðgang að rafmagni og að aðstæður séu viðunandi að öðru leyti. 

Nánar um húsfundaþjónustuna:
Þeim húsfélögum sem vilja hafa allt á hreinu í þessu efni og leita aðstoðar Húseigendafélagsins fer fjölgandi með hverju árinu. Þrátt fyrir það fjölgar líka stöðugt málum þar sem vandræði og deilur hafa risið og rekja má til mistaka við ákvarðanatöku og fundahöld. Þótt það virðist ekki vera mikið vandaverk að halda húsfundi, sem standast lagakröfur og eru bærir til að taka lögmætar ákvarðanir, þá reynist það oft þrautin þyngri.
Húseigendafélagið hefur á undanförnum árum veitt húsfélögum ráðgjöf og aðstoð við húsfundi.
En til að stuðla ennfremur að öryggi, húsfriði og traustum húsfundum býður Húseigendafélagið húsfélögum einnig upp á Húsfundaþjónustu. Þjónustan felst í því að aðstoða stjórnir húsfélaga við undirbúning funda, fundaboð, dagskrá, tillögur o.fl. Þá felur þjónustan í sér fundarstjórn og ritun fundargerðar.
Frá Húseigendafélaginu koma að hverjum fundi fundarstjóri og fundarritari. Fundarstjóri er lögfræðingur, sem hefur þekkingu, þjálfun og reynslu í fundahöldum ásamt sérþekkingu á sviði fjöleignarhúsamála. Lögfræðingar Húseigendafélagsins, sem eru sérfróðir í málefnum fjöleignarhúsa, koma einnig að þjónustunni og eru ráðgefandi um öll atriði hennar.
Með því að nýta sér húsfundaþjónustuna mega húsfélög, eigendur og viðsemjendur húsfélaga treysta því, að húsfundur sé lögmætur og ákvarðanir hans séu teknar með réttum hætti og að fundarefnin hljóti afgreiðslu í samræmi við lög og fundarsköp. Þá má einnig fullyrða að fundur, sem þannig er undirbúinn og stjórnað verði að öllu leyti betri fundur, málefnalegri, markvissari og árangursríkari.
Fyrir þjónustuna er tekin mjög sanngjörn þóknun, sem miðast við hóflegt tímagjald og þann tíma, sem í verkið fer. Hér er boðin fram sérþekking, kunnátta og reynsla og er gjaldið fyrir þjónustuna lágt í ljósi þess og einnig þegar haft er í huga að hún fyrirbyggir deilur og fjártjón. Það er því mikið hagsmunamál fyrir alla eigendur að húsfundir séu rétt haldnir þannig að ákvarðanir þeirra verði ekki vefengdar síðar með þeim leiðindum og fjárhagslegu skakkaföllum sem því fylgir. Það getur því sannarlega orðið húsfélagi mjög dýrkeypt að spara sér ráðgjöf og aðstoð við húsfundi.

  • Námskeið drög –

Húseigendafélagið mun á nýju ári halda mánaðarleg námskeið um hin ýmsu mál líðandi stundar sem félagsmönnum gefst kostur á að sitja. Námskeiðin verða til að mynda um rafbílavæðingu, fjármál húsfélaga, framkvæmdir, kaup- og sölu fasteigna og leigumál.

Námskeiðin verða haldin í Háskóla Íslands þegar fjöldatakmörkunum verða aflétt en fyrst um sinn í formi fjarfundar.

Að svo stöddu verður ekki tekið gjald fyrir setu á námskeiðinu en það verður fjöldatakmörkun, því er mikilvægt að félagsmenn skrá sig á námskeiðið á innra svæði heimasíðunnar.