fbpx

Um sönnun og kostnað af sönnunarfærslu í dómsmálum

Svo að dómsmál verði dæmt að réttu lagi er dómara nauðsynlegt að átta sig á hver séu atvik málsins. Þannig er það iðulega fyrsta verk dómara, þegar kemur að því að dæma mál, að slá því föstu hvað telst rétt vera um atvik málsins áður en hann víkur að því að leysa úr því á hvern hátt lögum skal beitt um atvikin. Stundum eru atvikin óumdeild með aðilum málsins og einfaldar það verkefni dómarans. Hann þarf þá ekki að eyða frekara púðri í þann þátt. Oftast er þó ágreiningur um atvikin á einn eða annan hátt, í sumum tilvikum um grundvallaratriði. Vaknar þá spurningin hvernig hagað sé sönnun og sönnunarbyrði um atvikin, og kostnaði af sönnunarfærslunni.

Dómsmálum er skipt í sakamál og einkamál. Í sakamálum er það lögákveðið að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði fyrir því að ákærður maður hafi gert það sem hann er sakaður um. Takist ákæruvaldi ekki sú sönnun skal sýkna manninn.

Í einkamálum eru réttarreglur um sönnun og sönnunarbyrði flóknari. Í grundvallaratriðum er það þó svo að sá sem er til sóknar í málinu, kallaður stefnandi, leggur upp mál. Hann staðhæfir í sóknarskjali sínu, stefnunni, að einhver atvik hafi gerst sem leiði til þess að lögum að hann eigi tiltekinn rétt á hendur stefnda, oftast um greiðslu peninga. Það fellur því stefnandanum í skaut í fyrstu atrennu að sanna að þau atvik sem hann telur að leiði til réttar á hendur stefnda hafi gerst. Hann leggur þá fram skjöl með stefnunni sem veita vísbendingar eða taka af tvímæli um einhver atvik. Stundum nægja ekki skjöl til sönnunar heldur verður einnig að leiða vitni fyrir dómi.

Sá sem er til varnar í máli, kallaður stefndi, er iðulega í þeirri stöðu að andæfa því sem stefnandinn staðhæfir um atvik málsins. Hann getur þá í greinargerð mótmælt því sem stefnandinn fullyrti sem ósönnuðu. Í sumum tilvikum leggur stefndi fram skjöl eða leiðir vitni sem gera sennilegt að fullyrðingar hans um atvikin séu rétt.

Það fellur svo í hlut dómara að fara yfir skjöl málsins og hlýða á framburði aðila þess og vitna. Hendur dómara í sakamálum eru býsna bundnar og í föstum skorðum hvað varðar sönnunarbyrði og sönnunarmat, svo sem að framan var komið inn á, en í einkamálum er sönnunarbyrðin og sönnunarmatið síður njörvað niður. Þar gildir svokallað frjálst sönnunarmat dómara, án þess að farið sé dýpra ofan í það í þessari grein.

Að framan var getið um að unnt sé að færa fram sönnur á atvik í dómsmálum með skjölum og framburðum vitna. Þar til viðbótar, og gildir það bæði um saka- og einkamál, er í sumum tilvikum nærtækt en í öðrum tilvikum nauðsynlegt að afla sönnunar með matsgerðum dómkvaddra matsmanna. Í einkamálum á slíkt t.d. við um gallamál í fasteignakaupum. Öflun slíkra matsgerða er aðilum í einkamálum kostnaðarsöm, raunar oft dýrari en eðillegt getur talist. Veldur sá kostnaður, að viðbættum lögmannskostnaði, einatt því að fólk veigrar sér við því að sækja rétt í slíkum málum, enda þótt réttur sé langlíkegast til staðar. Fram hafa komið hugmyndir um einföldun á sönnunarfærslu í þessum málaflokki en því miður ekki náð fram að ganga í nægjanlegum mæli.

Kostnaður af rekstri einkamála veldur því, sérstaklega þegar einstaklingar eiga í hlut, að ágreiningur er oft leystur með samkomulagi. Þannig enda langflest gallamál á þann veg og þá án þess að aflað sé matsgerðar dómkvadds matsmanns. Þótt það sé þjóðhagslega hagkvæmt að leysa mál fremur með sátt en dómi er þó ekki æskilegt eða réttlátt að unnt sé í of miklum mæli að skáka í skjóli óréttar þar eð kostnaður af því að sækja rétt sé of mikill.

Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður á LEX

Birt í morgunblaðinu þann 27. janúar 2021

Fleiri fréttir

Sumaropnun Húseigendafélagsins

Vegna sumarleyfa starfsmanna er hurðin lokuð hjá okkur til 6. ágúst nk. Hægt að er ná í starfsmann á okkar vegum í síma 588-9567, einnig er hægt að senda póst