fbpx

Almenn hagsmunagæsla og réttarbætur

Hæst hefur borið í almennu hagsmunabaráttu félagsins að stuðla að réttarbótum fyrir fasteignaeigendur. Hefur félaginu orðið verulega ágengt í því efni öllum húseigendum til hags og heilla. Má nefna gildandi fjöleignarhúsalög, húsaleigulög, löggjöf um fasteignakaup og fasteignasala sem félagið átti frumkvæði að samningu og setningu þeirra.

Formaður félagsins, Sigurður Helgi Guðjónsson hrl, er höfundur laganna um fjöleignarhús og jafnframt aðalhöfundur nýrra húsaleigulaga. Auk þess samdi Sigurður reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, sem tók gildi um áramótin 2000 og 2001 og hafði miklar réttarbætur í för með sér.
Áralöng barátta félagsins fyrir setningu laga um fasteignaviðskipti bar árangur á árinu 2002 þegar Alþingi setti í fyrsta sinn lög um fasteignakaup. Fram að þeim tíma höfðu ekki gilt sérstakar skráðar reglur á þessu mikilvæga réttarsviði, heldur byggðist réttarstaða manna á ýmsum óskráðum meginreglum og dómafordæmum. Fyrir vikið gat réttarstaðan í ýmsum tilvikum verið óljós. Með setningu vandaðra og ítarlegra laga um fasteignakaup var margs konar réttaróvissu því eytt og hefur vafatilvikum og dómsmálum fækkað í þessum málaflokki. Sigurður Helgi Guðjónsson hrl., formaður Húseigendafélagsins, vann að gerð laganna en höfundur þeirra var Viðar Már Matthíasson lagaprófessor og dómari við Hæstarétt Íslands.“

Þá var það formaður Húseigendafélagsins sem kom á breytingu á fjöleignarhúsalögunum með tilliti til rafbílavæðingar.