fbpx

Samþykktir Húseigendafélagsins

1. gr.

Félagið heitir Húseigendafélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að stuðla að því, að fasteignir á Íslandi verði ávallt sem tryggust eign, að fasteignir verði almennt í einkaeigu, að gæta í hvívetna hagsmuna fasteignaeigenda á Íslandi gagnvart stjórnvöldum og öðrum og að reka hagnýta ráðgjöf fyrir félagsmenn sína.

3. gr.

Félagi í Húseigendafélaginu getur orðið sérhver eigandi fasteignar á Íslandi.
Húsfélög í fjölbýlishúsum geta gengið í félagið og hefur þá hver íbúðareigandi sjálfstæð félagsréttindi, t.d. atkvæðisrétt á fundum.

4. gr.

Félagsgjöld skulu ákveðin af stjórn félagsins og innheimt á fyrsta fjórðungi þess árs, er þau varða.
Sé sérstök ástæða til getur stjórnin ákveðið og innheimt aukafélagsgjald síðar á því ári.
Stjórn félagsins er heimilt að ákveða hæfilegt gjald fyrir sérfræðilega þjónustu, sem það lætur félagsmönnum í té.

5. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

6. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal halda í mars eða apríl ár hvert. Til hans skal stjórn félagsins boða með auglýsingum í blöðum og útvarpi eða á annan tryggilegan hátt með viku fyrirvara hið skemmsta.
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

7. gr.

Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:
Stjórn félagsins gerir grein fyrir starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi og hag þess síðasta reikningsárs.
Stjórnin leggur fram og skýrir endurskoðaða reikninga félagsins og ber upp til samþykktar.
Ákveðin þóknun til stjórnar og endurskoðenda fyrir störf þeirra.
Stjórnin gerir grein fyrir ákvörðun sinni um fjárhæð félagsgjalds.
Kosning stjórnar og varastjórnar.
Kosning endurskoðenda.
Önnur mál.

8. gr.

Aukafundi skal halda þegar stjórn félagsins þykir við þurfa, samkvæmt fundarályktun eða þegar minnst 25 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda segi þeir til um, hvers vegna þeir æskja fundar.
Þegar lögmæt krafa um fundarhald er fram komin skal fund halda innan mánaðar.
Til aukafunda skal boða á sama hátt og aðalfundar. Í fundarboði skal geta stuttlega þeirra mála, er fyrir eiga að koma á fundinum.

9. gr.

Formaður (varaformaður) setur fundi og stjórnar kjöri fundarstjóra og ritara.
Kjörinn fundarstjóri rannsakar í fundarbyrjun, hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan hvort svo sé.
Rétt til fundarsetu, atkvæðisrétt og kjörgengi hafa þeir félagar, sem ekki skulda meira en eitt árgjald.
Félagsmenn verða sjálfir að vera viðstaddir til atkvæðagreiðslu á fundum félagsins.
Framboð til stjórnar félagsins skal tilkynnt til skrifstofu þess og liggja þar frammi, minnst fjórum virkum dögum fyrir aðalfund.

10. gr.

Á fundum félagsins ræður afl atkvæða úrslitum nema annars sé sérstaklega getið í samþykktum þessum.
Atkvæðagreiðsla fer fram eftir því sem fundarstjóri kveður nánar á um.
Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram ef einhver fundarmanna krefst þess.

11. gr.

Í gerðarbók félagsins skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir.
Fundarstjóri og sá sem kosinn hefur verið ritari á fundinum undirskrifa fundargerðir.
Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er fram hefur farið á fundinum.
Í gerðarbók skal einnig skrá skýrslu um stjórnarfundi með sama hætti og undirrita hana allir viðstaddir stjórnarmenn.

12. gr.

Samþykktum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi (og framhaldsaðalfundi) þess.
Til breytinga á samþykktum þarf að minnsta kosti helmingur félagsmanna að vera á fundi.
Nái tillaga til breytinga á samþykktum samþykki meiri hluta fundarmanna öðlast hún gildi.
Ef fundur er ekki svo vel sóttur að nái helmingi félagsmanna en meira en helmingur fundarmanna greiðir atkvæði með breytingunni, skal stjórnin boða til framhaldsaðalfundar innan mánaðar og skal á þeim fundi til lykta ráðið breytingunni, hvort sem þann fund sækja fleiri eða færri.
Í fundarboði aðalfundar (framhaldsaðalfundar) skal þess getið sérstaklega ef tillaga til breytinga á samþykktum verður tekin fyrir á fundinum.
Vilji félagsmenn koma með tillögu um breytingar á samþykktum félagsins verður að leggja þær fram skriflega á skrifstofu félagsins fyrir lok janúarmánaðar.

13. gr.

Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi og skipa hana 5 aðalmenn og 3 varamenn. Stjórnarkjöri skal haga þannig:
Formaður skal kjörinn sérstaklega til eins árs í senn.
Tveir meðstjórnendur skulu kjörnir ár hvert og er kjörtímabil þeirra tvö ár.
Í varastjórn skulu kjörnir þrír menn til eins ár í senn. Skulu þeir kjörnir sem 1. 2. og 3. varamaður og taka þeir sæti í aðalstjórn í þeirri röð.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, kýs varaformann, gjaldkera og ritara.

14. gr.

Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkum er samþykktir þess setja.
Hún fer með öll málefni félagsins milli funda og tekur ákvarðanir um þau í samræmi við hagsmuni og tilgang félagsins. Hún skal hafa sérstakar gætur á öllum málum sem fram kunna að koma og varða hagsmuni fasteignareigenda.
Stjórn félagsins skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og eins stjórnarmanns nægileg til þess.

15. gr.

Formaður (varaformaður) kveður stjórnina saman og stýrir fundum hennar.
Skal stjórnarfundi boða með eins dags fyrirvara a.m.k.
Stjórnarfundur er ályktunarfær ef 3 aðalstjórnarmenn og 1 varastjórnarmaður sækja fund hið fæsta.
Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns) úrslitum.
Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

16. gr.

Tveir endurskoðendur skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár.
Endurskoðendur skulu kosnir á aðalfundi til 1 árs og skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi.
Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins í 7 daga fyrir aðalfund til athugunar fyrir félagsmenn.

17. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að ráða sérstakan framkvæmdastjóra til starfa í þágu félagsins svo og annað starfsfólk fyrir félagið. Stjórnin segir slíku starfsfólki upp starfanum.
Framkvæmdastjóra má veita heimild til að skuldbinda félagið fjárhagslega til alls er lýtur að daglegum rekstri þess.
Hefur stjórn félagsins í heild yfirumsjón með störfum á skrifstofu þess.

18. gr.

Innan Húseigendafélagsins geta starfað deildir, bæði staðbundnar og á grundvelli sérstakra hagsmuna.
Félagsdeildir eru stofnaðar með félagsfundarsamþykkt.
Í deildum félagsins hverri fyrir sig skal vera þriggja manna stjórn kosin á aðalfundi deildar.
Aðalfundi deilda skal halda árlega innan mánaðar frá aðalfundi félagsins.
Félagsmenn í deildum innan félagsins teljast jafnframt vera félagsmenn í Húseigendafélaginu.
Breytingar á samþykktum verða ekki gerðar á fundum deilda.
Að öðru leyti gilda almennar reglur samþykkta þessara um deildir félagsins eftir því sem við getur átt.

19. gr.

Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til breytinga á samþykktum félagsins, að öðru leyti en því, að þá þarf samþykki 2/3 atkvæða.
Nái slík tillaga fram að ganga skulu eignir félagsins renna til einhvers þess félagsskapar eða stofnunar sem hefur líkt starf með höndum og þetta félag og skal ákvörðun um þetta tekin á þeim fundi.
___________________
Að stofni til eru samþykktir félagsins frá 23. febrúar 1923 en þær voru endurskoðaðar og samþykktar í núverandi mynd á framhaldsaðalfundi hinn 26. apríl 1985 og breytt (3. mgr. 9. gr.) á framhaldsaðalfundi 28. apríl 1992.