fbpx

Starfsemi félagsins

Félagið rúmlega 100 ára. 10 þúsund félagar. 800 húsfélög.

Húseigendafélagið á sér langa tilvist og sögu. Það var stofnað árið 1923 og hefur starfað óslitið síðan. Það er almennt hagsmunafélag húseigenda. Gildir einu hvort fasteignin er einbýlishús, íbúð í fjöleignarhúsi, atvinnuhúsnæði, land eða jörð og hvort sem hún er til eigin nota eða útleigu. Það geta allir fasteignaeigendur, einstaklingar, félög og fyrirtæki gerst félagar. Félagsmenn eru um tíu þúsund og hefur farið jafnt og þétt fjölgandi undanfarna áratugi. Mest hefur fjölgunin verið meðal húsfélaga í fjöleignarhúsum  en í félaginu eru nú um 800 húsfélög.

Þríþætt starfsemi.

Starfsemi Húseigendafélagsins er þríþætt:

  1. Almenn hagsmunagæsla fyrir fasteignaeigendur.
  2. Almenn fræðslustarfsemi og upplýsingamiðlun.
  3. Ráðgjöf og þjónusta við félagsmenn, einkum lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.

Sjálfstætt og óháð og þiggur enga styrki.

Sumir húseigendur standa í þeirri trú að þeir séu sjálfkrafa meðlimir í Húseigendafélaginu eða að það sé opinber stofnun sem veiti öllum  þjónustu. Svo er ekki. Menn verða að ganga í félagið til að fá félagsréttindi, s.s. lögfræðiaðstoð.  Félagið nýtur engra opinberra styrkja og er sjálfstætt og óháð í einu og öllu. Það eru félagsgjöldin sem standa að langmestu leyti undir starfsemi félagsins.  Félagsgjaldinu er mjög í hóf stillt og eins er um endurgjald fyrir lögfræðiþjónustuna.

Réttarbætur.

Hæst hefur borið í almennu hagsmunabaráttu félagsins að stuðla að réttarbótum fyrir fasteignaeigendur. Hefur félaginu orðið verulega ágengt í því efni öllum húseigendum til hags og heilla. Má nefna gildandi fjöleignarhúsalög og húsaleigulög og löggjöf um fasteignakaup og fasteignasala. Nú stendur yfir á vegum velferðarráðuneytisins endurskoðun fjöleignarhúsalaganna undir forystu formanns félagsins.

Lögfræðiþjónusta.

Húseigendafélagið rekur sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn sína á þeim réttarsviðum, sem varða fasteignir og eigendur þeirra.  Lögfræðiþjónustan hefur verið þungamiðjan í starfsemi félagsins síðustu áratugi. Býr félagið yfir mikilli og sérhæfðri þekkingu og reynslu á þessum sviðum  lögfræðinnar. Fyrir lögfræðiþjónustuna er tekin þóknun samkvæmt tímagjaldi, sem er verulega lægra en hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum. Félagsmenn hjá félaginu verulega niðurgreidda lögfræðiþjónustu og er félagsgjaldið mjög fljótt að skila sér til baka með því og það oft margfalt.

Málaflokkar.

Það eru aðallega eftirtaldir málflokkar koma til kasta lögfræðiþjónustunnar:

1.         Mál sem snerta fjöleignarhús og eigendur þeirra.
2.         Mál vegna vanefnda í fasteignaviðskiptum, einkum gallamál.
3.         Húsaleigumál.
4.         Mál vegna vanefnda byggingaraðila og verktaka.
5.         Mál gagnvart byggingaryfirvöldum og öðrum stjórnvöldum.
6.         Grenndarmál af ýmsum toga.

Nánar um lögfræðiþjónustuna.

Lögfræðiþjónustan er mjög eftirsótt og því þarf að setja henni ákveðnar skorður. Hún er aðallega hugsuð sem “fyrsta hjálp”, þ.e. að aðstoða félagsmenn við að skilgreina vandamál sín og átta sig á réttarstöðu sinni og leiðbeina þeim veginn áfram, svo sem til lögmanns. En ef mál vinda upp á sig og verða viðamikil og tímafrek, þá verður félagið að meginstefnu til að vísa þeim til starfandi lögmanna. Rekstur dómsmála fellur almennt utan ramma lögfræðiþjónustu félagsins en lögmenn félagsins geta þó tekið mál til dómsmeðferðar að fengnu leyfi framkvæmdastjóra. Eftirspurn eftir lögfræðiþjónustunni er mikil og algengt er að tugir  nýrra mála berist  í viku hverri. Sum erindi eru þess eðlis að hægt er að afgreiða þau í einum viðtalstíma, en flest kalla þau á meiri vinnu, yfirlegu, rannsóknir, gagnaöflun, úrvinnslu, skjalagerð og skriftir, bréfaskriftir, álitsgerðir, fundahöld o.fl. Vinna við einstök mál getur því verið frá hálfri klukkustund eða jafnvel minna og allt að mörgum klukkutímum eftir eðli og umfangi.

Húsfélög með allt á hreinu.

Það er ómetanlegt fyrir húsfélög sem vilja hafa allt á hreinu að geta tryggt hagsmuni félagsins og eigenda á hagkvæman hátt með því að ganga í Húseigendafélagið og fá hjá því lögfræði- og húsfundaþjónustu. Aðild að Húseigendafélaginu er skynsamleg og hagkvæm ráðstöfun og þess eðlis að einfaldur meirihluti eigenda á húsfundi miðað við hlutfallstölur getur tekið ákvörðun þ.a.l.

Húsfundaþjónustan.

Um að ræða alhliða lögfræðilega ráðgjöf og aðstoð við fundarboð, tillögur og gagnaöflun. Undirbúningsfundir eru haldnir undir leiðsögn lögfræðinga félagsins. Lögmaður með sérþekkingu annast fundarstjórn og ritun fundagerðar er í höndum laganema. Einnig er séð fyrir fundarhúsnæði enda brýnt að húsnæði sé viðunandi og henti til funda.  Þessi þjónusta á að tryggja lögmæta fundi og að rétt sé  að öllu staðið þannig að ákvarðanir fundar verði ekki síðar vefengdar. Þessi þjónusta er því skynsamleg öryggisráðstöfun fyrir alla, bæði eigendur og viðsemjendur húsfélags, banka og verktaka.  Fundur, sem er undirbúinn og haldinn af þekkingu og fagmennsku er ávalt málefnalegri, markvissari og árangursríkari fundur en þar sem fum og fúsk ræður. Fyrir þessa þjónustu er tekin mjög sanngjörn þóknun, sem miðast við hóflegt tímagjald. Til að fá þessa þjónustu þurfa húsfélög að vera í Húseigendafélaginu eða tillaga um félagsaðild sé á dagskrá fundarins.

Húsaleiguþjónusta.

Útleiga húsnæðis getur verið áhættusöm fyrir leigusala. Húseigendafélagið býður leigusölum upp á þjónustu, sem tryggir öryggi í leiguviðskiptum og dregur úr fjárhagslegri áhættu og arnmæðu vegna  leiguvanskila og skemmda á leiguhúsnæði. Félagið gerir leigusamninga og gefur ráð og upplýsingar um réttindi og skyldur aðila, lagaatriði og ráðstafanir, s.s. tryggingar o.fl. Einnig er boðið upp á könnun á skilvísi leigjenda. Þá aðstoðar félagið leigusala þegar vandamál koma upp á leigutímanum eða við lok hans, t.d. við vanskil á húsaleigu, riftanir, uppsagnir o.fl. Eru leigusalar sem vilja stunda útleigu án vandræða og skakkafalla eindregið hvattir til að nýta sér þessa þjónustu.  Fyrirhyggja, varúð og vöndun í upphafi er lykilinn að góðum og hnökralausum leiguviðskiptum og ánægjulegum samskipum aðila. Þessi þjónusta er mjög ódýr miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru. Ef illa er staðið að málum í upphafi geta eftirmálin orðið dýr, tímafrek og erfið.

Félagsgjaldið o.fl.

Kappkostað hefur verið að halda félagsgjaldinu í hófi. Árgjald húsfélaga fer eftir fjölda íbúða eða eignarhluta, sjá gjaldskrá. Gjaldtaka fyrir alla þjónustu í félaginu er í algjöru lágmarki. Hefur það reynst unnt með ráðdeild í rekstri og verulegri fjölgun félaga, einkum húsfélaga. Má segja öll þjónusta við félagsmenn sé verulega niðurgreidd enda yfirleitt ekki nema brot af því sem sambærileg þjónusta kostar hjá öðrum, svo sem lögmönnum og leigumiðlurum. Við inngöngu er greitt skráningargjald, sjá gjaldskrá.

Skrifstofan. Heimasíðan. Greinar.

Starfsstöð Húseigendafélagsins er í Reykjavík að Síðumúla 29, sími: 588-9567, netfang: postur@huso.is. Þar eru veittar frekari upplýsingar um félagið, starfsemi þess og þjónustu. Á skrifstofunni eru fyrirliggjandi margvísleg gögn og upplýsingar, s.s. lög og reglugerðir, eyðublöð fyrir húsaleigusamninga og fræðsluefni af ýmsu tagi. Þá hefur heimasíða félagsins að geyma margvíslegan fróðleik og er þar m.a. yfirlit yfir fjölda lögfræðilegra greina sem félagsmenn geta fengið endurgjaldslaust.